Vel hægt að jafna ágreininginn

Hafsteinn Karlsson.
Hafsteinn Karlsson.

Hafsteinn Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, segir að þó að flokkurinn hafi á tíðum tekist harkalega á við Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi, sé ekki þar með sagt að ekki sé hægt að jafna ágreininginn. 

Hann segir að félagar í Samfylkingunni kunni að hafa látið ýmis orð falla í garð Sjálfstæðisflokksins, en í þeim hópi sé enginn bæjarfulltrúi. Rangt sé því greint frá í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag, þar sem sagt er að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi hafi sagt í samtali við Morgunblaðið í gær „að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn væri neyðarúrræði og töluðu um hrylling og þung spor í því sambandi“.

„Hér er ekki rétt haft eftir. Það hefur enginn bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar lýst því yfir að einhver hryllingur fylgi því að starfa með Sjálfstæðisflokknum né að það sé neyðarúrræði,“ segir Hafsteinn.

„Í frétt Morgunblaðsins í gær var þetta hins vegar haft eftir fundarmanni á fjölmennum fundi Samfylkingarinnar í Kópavogi kvöldið áður. Þessir tveir flokkar eiga sér vissulega sína sögu í bænum og á stundum tekist harkalega á, en það er ekki þar með sagt að fyrri ágreining þessara tveggja flokka sé ekki hægt að jafna.  Þótt oft hafi blásið hraustlega hafa þessir flokkar m.a. unnið sameiginlega að gerð fjárhagsáætlunar í þrígang og gekk það afar vel.  Nú er tími til þess að horfa fram á við í stað þess að dvelja við fortíðina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert