Rætt verði við Samfylkinguna án VG

Ármann Kr. Ólafsson
Ármann Kr. Ólafsson mbl.is/Brynjar Gauti

Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi, hafði samband við Guðríði Arnardóttur, oddvita Samfylkingar, um möguleika á viðræðum um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn, gegn því að Samfylkingin léti af samspyrðingi sínum við Vinstri græna í þeim viðræðum. Að sögn Ármanns fékk hugmyndin dræmar viðtökur.

„Við erum á fullu við að reyna að koma þessu eitthvað áfram. Það eru ekki orðnir margir kostir í stöðunni. Sjálfstæðisflokknum er stillt upp við vegg um að hann verði að tala við tvo flokka. Það gengu allir flokkar óbundnir til kosninga og óeðlilegt að mynda kosningabandalag eftir á,“ segir Ármann en engir formlegir viðræðufundir hafa verið ákveðnir í kvöld eða á morgun. „En vissulega eru menn að tala saman.“

Meirihluti hefur ekki verið starfandi í Kópavogi í nærri tvær vikur, eftir að upp úr samstarfi Samfylkingar, VG, Næstbesta flokksins og lista Kópavogsbúa slitnaði vegna ágreinings um hvernig að uppsögn bæjarstjórans var staðið, Guðrúnar Pálsdóttur.

Eftir sem áður er Guðrún enn starfandi sem og forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs. Nefndir bæjarins hafa einnig starfað þrátt fyrir meirihlutaleysið. Ármann segir að vitanlega geti þetta ástand ekki varað til lengdar og nauðsynlegt að bæjarfulltrúar komi sér saman um nýjan meirihluta.

Ármanni hugnast ekki tillaga Hjálmars Hjálmarssonar, Næstbesta flokknum, um að bæjarfulltúarnir 11 starfi saman í nokkurs konar „þjóðstjórn“, og að fulltrúum í nefndum verði fjölgað úr fimm í sjö. Þá lagði Hjálmar einnig til að Sjálfstæðisflokkurinn fengi formennsku í bæjarráði og Samfylkingin varaformennsku, og að oddvitar allra flokka myndu hittast á vinnufundi degi fyrir fund bæjarstjórnar, í stað meirihlutafundar áður.

„Ég hef ekki góða sannfæringu fyrir þessari tillögu og tel að það yrði losarabragur á þessari vinnu. Ég sé ekki hvernig þeir sem segjast ekki geta unnið með okkur í meirihluta ætla að vinna með okkur í einhvers konar þjóðstjórn. Ég tel að í stórum sveitarfélögum eins og Kópavogi, því næststærsta á landinu, geti svona samstarf trauðla gengið upp, þó að það geti kannski gengið í smærri sveitarfélögum,“ segir Ármann um tilllögu Hjálmars, sem fékkst ekki rædd á fundi bæjarstjórnar í gær.

„Menn verða bara að fara að mynda meirihluta og koma aftur á einhverjum stöðugleika, þannig að við lendum ekki í þeim sama glundroða sem er núna í stjórnmálum á landsvísu. Við höfum ekki verið að raska starfi nefndanna og þetta er ekkert úrslitaatriði í dag eða á morgun,“ segir Ármann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert