Formaður foreldrafélags Hamraskóla hefur sagt sig úr stýrihópi um breytingu á Foldaskóla í heildstæðan safnskóla á unglingastigi og flutning nemenda í 8.-10.bekk úr Hamraskóla og Húsaskóla.
Í kvöld var haldinn opinn fundur í Hamraskóla um fyrirhugaðan flutning unglingadeildar skólans í safnskóla í Foldaskóla.
Segir í yfirlýsingu frá Elínu Hjálmsdóttur að í ljósi framvindu mála síðustu fjóra mánuði sjái hún sér ekki fært að starfa áfram í stýrihópinum.
Óskir foreldra virtar að vettugi
„Það að óskir foreldra, jafnvel aðeins fyrirspurnir foreldra, séu með öllu virtar að vettugi er óásættanlegt og algjörlega óskiljanlegt.
Það að pólitíkin bendi á stýrihóp og stýrihópur, sem valdalaust fyrirbæri , bendi til baka á pólitíkina, er ekki bara ótrúverðugt heldur einnig óásættanlegt og óskiljanlegt.
Það að sviðsstjóri skóla-og frístundasviðs leyfi sér að senda bréf sem er ekki aðeins, ég leyfi mér að segja, stútfullt af innantómum frösum heldur ber þess merki að viðkomandi hafi ekki á nokkurn hátt kynnt sér hlutina er óásættanlegt og óskiljanlegt.
Sem foreldri og íbúi í Hamrahverfi finnst mér þessi vinnubrögð með öllu óásættanleg og óskiljanleg.
Ég segi mig því hér með úr umræddum stýrihópi,“ segir Elín í yfirlýsingu.
Tímasetningin hentaði ekki
Í frétt Morgunblaðsins í dag kom fram að Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, myndi ekki sækja fundinn þar sem tímasetning hans hentaði henni ekki.
Það var hinn 7. janúar sem hópurinn bauð Oddnýju og fleiri fulltrúum borgarinnar til fundar til að fá skýrari svör um sameininguna, hvað hún þýðir fyrir framtíð skólans. Hinn 12. janúar svaraði Oddný boðinu en sagðist ekki telja þörf á öðrum opnum fundi um sameiningarmálin. Þess í stað bauð hún Árna auk tveggja annarra talsmanna hópsins að koma til fundar við sig á skrifstofu sinni til að ræða málin.
„Við þrjú erum bara lítið brot af þessum hópi sem spratt upp eftir fund með stýrihópi sameiningarmálanna í Foldaskóla í desember. Það er náttúrlega ekki boðlegt að tugir foreldra sem voru á þeim fundi fari að troða sér inn á hennar skrifstofu. Það er mun eðlilegra að við boðum hana á fund sem og við höfum gert með þessum árangri,“ segir Árni í samtali við Morgunblaðið í dag.
Áform um þennan flutning unglingastigsins í Foldaskóla eru hluti af tillögum um sameiningar grunn- og leikskóla í Reykjavík sem borgarstjórn samþykkti sl. vor. Þá var samþykkt að Foldaskóli yrði heildstæður safnskóli á unglingastigi fyrir nemendur í Hamraskóla og Húsaskóla. Undirbúa átti breytingarnar núna þetta skólaár með þátttöku foreldra og starfsfólks skólanna og stýrihópur skipaður af því tilefni. Einnig var samþykkt í borgarstjórn að skoða rekstur Hamraskóla og Húsaskóla með tilliti til betri nýtingar á húsnæði og hugsanlegrar sameiningar í stjórnun eða sameiningar við leikskóla í nágrenninu.
Ekki hlustað á áskoranir 12 þúsund íbúa
Bjarki Sigfússon faðir tveggja nemenda í Hamraskóla sagði á fundinum í kvöld að tillögur um sameiningu hafi verið gagnrýndar á öllum stigum málsins og meirihlutinn ítrekað verið beðinn að staldra við.
„Að mínu mati sína þessi dæmi glöggt að málið er keyrt gegnum hvern fundinn á fætur öðrum í krafti meirihluta atkvæða án tillits til andstöðu eða varnaðarorða. Eða eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu bóka fundi borgarráðs þann 18 apríl 2011 þegar ljóst var í hvað stefndi.
Þrátt fyrir að 12.000 íbúar hafi skorað á borgarstjórn, rúmlega 90% umsagna vegna málsins séu neikvæðar og ljóst sé að fjárhagslegur ávinningur sé alltof lítill miðað við áhættuna sem í tillögunum felst, hyggst meirihlutinn fullnaðarafgreiða tillögur um samrekstur í skólaumhverfi Reykjavíkur á fundi borgarstjórnar á morgun,“ segir Bjarki.
Börnin verða verst úti
Bjarki segist þess fullviss að velgengni Besta flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum er að mestu leyti því að þakka að stór hluti kjósenda hafði fengið sig fullsaddan af stjórnmálamönnum og þeirra vinnubrögðum.
„Kjósendur Besta flokksins höfðu væntingar um ný vinnubrögð og nýjar áherslur. Sigmar Guðmundsson hélt því fram við Jón Gnarr í kastljósi um daginn að komið hefði í ljós að Besti flokkurinn hefði ekkert nýtt fram að færa og væri í raun farinn að haga sér eins og týpískur valdaflokkur, því hafnaði Jón með mörgum neium. Mér finnst meðferð þessa máls styðja þessa fullyrðingu Sigmars, vilji hagsmunaðila er í það minnsta algerlega virtur að vettugi og málið ber þess sterk merki að meirihlutinn skynji þetta mál sem pólitíska orrustu við minnihlutann sem verði að vinnast óháð fórnarkostnaði, og alveg eins og í öðrum stríðum sem þeir fullorðnu heyja, verða börnin verst úti,“ segir Bjarki.