Hátt í 300 bílar fastir

Björgunarsveitir aðstoða vegfarendur í ófærð. Úr safni.
Björgunarsveitir aðstoða vegfarendur í ófærð. Úr safni. mbl.is/Golli

Slysavarnafélagið Landsbjörg segir að enn sé mikið að gera hjá björgunarsveitum á Suðurnesjum vegna ófærðar. Áætlað sé að bílar sem setið hafa fastir þar séu á þriðja hundraðið.

Fram kemur í tilkynningu að hasarinn hafi hafist í gærkvöldi og hafi staðið í alla nótt. Þrátt fyrir að allar sveitir á svæðinu hafi verið úti sem og sex hópar sem sendir voru af höfuðborgarsvæðinu til aðstoðar varð að grípa til þess ráðs að taka fólk úr bílum sínum og skilja þá eftir enda höfðu margir beðið 3-4 tíma eftir aðstoð. Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöðvar á tveimur stöðum til að sinna fólkinu.

Nú er unnið hörðum höndum að því að fjarlægja þessa bíla svo snjóruðningstæki komist að. Reykjanesbrautin hefur verið meira og minna lokuð í nótt, reynt var að opna hana í morgun en henni var lokað aftur um hálftíma síðar.   

Á höfuðborgarsvæðinu berast nú fáar aðstoðarbeiðnir og eru björgunarsveitir að tínast í hús eftir að hafa aðstoðað vel á annað hundrað ökumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert