Hlutur Íslands í þeim heildarafla sem Hafrannsóknastofnun leggur til á yfirstandandi loðnuvertíð er 590 þúsund tonn. Útflutningsverðmæti loðnunnar er um 30 milljarðar króna. Hlutur Færeyja er 30.000 tonn. Þetta kemur fram á vef LÍÚ.
Mælingu á stofnstærð veiðistofns loðnu er lokið og leggur Hafrannsóknastofnunin til að heildaraflamark loðnu á vertíðinni 2011/2012 verði 760 þúsund tonn. Loðna mældist á stóru hafsvæði bæði djúpt og grunnt.
„Þetta eru mjög góðar fréttir í tvennum skilningi og þær bestu í langan tíma af loðnustofninum. Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir þá sem veiða og vinna loðnu og einnig varðandi aðgengi þorsks og annarra nytjastofna að henni til fæðu,“ sagði Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, aðspurður um þessa tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar á vef LÍÚ.