Fimm ára samstarfi milli vatnsmálaráðuneytis Namibíu og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands lauk á dögunum með uppsetningu 39 vatnsveitna sem mun sjá allt að 27 þúsundum manns fyrir hreinu vatni.
Vatnsveiturnar voru reistar í dreifbýlum byggðum í norðvesturhluta Namibíu þar sem Himba-ættflokkurinn hefur aðsetur.
„Núna að fimm árum loknum þá virðist verkefnið hafa tekist mjög vel,“ segir Vilhjálmur Wiium, starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. „Allar vatnsveiturnar 39 eru í lagi og sjá íbúum og búfénaði fyrir langþráðu hreinu vatni. ÞSSÍ hefur í hyggju að heimsækja norðvesturhluta Namibíu á nýjan leik eftir fjögur til fimm ár og meta þá árangurinn af aðgerðunum. Þannig skapast verðmæt þekking á langtímaáhrifum vatnsveituverkefna að sögn Vilhjálms.
Lækkar tíðni kóleru
Vatn er af mjög skornum skammti á þessum slóðum. „Flestir á svæðinu þurfa að treysta á skítugt yfirborðsvatn og handgröft eftir vatni í þurrum árfarvegum. Við upphaf verkefnisins höfðu 36% íbúa svæðisins aðgang að hreinu vatni, samanborið við 87% í landinu öllu. Ríflega 20% þurftu að ganga meira en einn kílómetra til að nálgast vatn. Á þessum fimm árum voru settar upp 39 vatnsveitur sem gefa af sér hreint vatn bæði fyrir fólk og búfénað. Möguleg vatnsframleiðsla þessara 39 vatnsveitna er 410.000 lítrar á dag, sem samsvarar um 150 milljónum lítra á ári. Þetta vatnsmagn dygði til að mæta lágmarksvatnsþörf 27 þúsund manna.
Vatnið gegnir enn veigameira hlutverki en að svala þorsta íbúanna, en uppsetning hreinna vatnsveitna hefur í för með sér lækkaða tíðni ýmissa sjúkdóma, s.s. kóleru og ýmissa magakveisna og einnig minnkar vinnuálag á konur og stúlkubörn, því aðgengi að vatni batnar. Vilhjálmur segir brunnana jafnframt hafa ýmis óbein áhrif, til dæmis hefur skólastarf á svæðinu batnað mikið. Má þar nefna að á nokkrum stöðum hefur kennsla hafist nálægt vatnsveitum, þar sem kennsla var ekki áður eða hafði hætt. Eins benda óformlega kannanir til að börnum sem sækja skóla hafi fjölgað og að mæting hafi batnað.”
Vilhjálmur segir framtíðarverkefni ÞSSÍ meðal annars felast í uppbyggingu menntamála. Ekki síst sé þörf fyrir menntun kennara, en dæmi eru um að hver kennari hafi umsjón með 100-200 börnum. Menntunarstig sé gríðarlega lágt og mikil þörf fyrir frekari menntun til að efla uppbyggingu og þátttöku í atvinnulífi.