Ólga meðal starfsmanna Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. mbl.is/Ómar

Mikil óánægja kom fram á félagsfundi SFR stéttarfélags vegna fyrirhugaðs tilraunaverkefnis sem felur í sér að hluti starfsemi stofnunar muni færist yfir á skrifstofur stéttarfélaga.

Fram kemur í tilkynningu frá SFR að fundurinn hafi verið haldinn að frumkvæði starfsmanna Vinnumálastofnunar.

„Starfsmenn hafa þungar áhyggjur af fyrirhugaðri framkvæmd og segja m.a. í ályktun sem fundurinn sendi frá sér með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er að setja aukafjármuni upp á 300 milljónir í slíkt tilraunaverkefni í stað þess að efla starf stofnunarinnar og starfsfólk hennar,“ segir í tilkynningu.

Á fundinum voru einnig rædd launamál starfsmanna, en þeir mótmæla harðlega þeirri launastefnu sem rekin er og segja m.a. að samanburður við aðrar ríkisstofnanir sýni að launasetning starfsmanna Vinnumálastofnunar víki verulega frá því sem aðrir starfsmenn ríkisins búa við. Starfsmenn Vinnumálastofnunar hafa búið við langvarandi og óeðlilegt vinnuálag en starfsmenn hafa í  allmörg ár krafist launaleiðréttingar án sýnilegs árangurs.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum í gær.

„Starfsfólk Vinnumálastofnunar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðs tilraunaverkefnis þar sem gert er ráð fyrir að stéttarfélög taki að sér vinnumiðlun og ráðgjöf fyrir atvinnuleitendur í stað ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Starfsfólki Vinnumálastofnunar finnst með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er að setja aukafjármuni upp á 300 milljónir í slíkt tilraunaverkefni í stað þess að efla starf stofnunarinnar og starfsfólk hennar. Varla verður annað séð en að markmið tilraunaverkefnisins sé fyrst og fremst að brjóta niður stofnunina og þá góðu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað. Bent er á að starfsemi Vinnumálastofnunar hefur eflst mikið undanfarin þrjú ár, starfsmannafjöldi hennar hefur farið úr 100 í 160 manns og enn er þörf á að bæta þar við. Starfsfólk Vinnumálastofnunar um allt land hefur staðið í eldlínunni og tekist á við nýjan veruleika í íslensku samfélagi, sem ört vaxandi atvinnuleysi hefur skapað með tilheyrandi álagi og erfiðleikum. Á þessum tíma hefur skapast dýrmæt þekking og reynsla meðal starfsmanna sem hætta er á að muni glatast ef af fyrirhuguðum breytingum verður. Það eru kaldar kveðjur sem stjórnvöld senda starfsfólki Vinnumálastofnunar því framkvæmd þessi mun einungis skila ráðgjöfum og öðru starfsfólki Vinnumálastofnunar  minnkandi starfsöryggi og uppsögnum. Slíkt  er með öllu óásættanlegt.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert