Alþingi hefur ákæruvaldið í landsdómsmálinu og getur hvenær sem er afturkallað ákæruna á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Þetta kom fram í máli Sigríðar Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins sem nú stendur yfir. Sigríður sagðist þannig ekki sammála þeirri skoðun Ólafs Jóhannessonar, fyrrverandi lagaprófessors, að þegar Alþingi hefði ákært væri málið úr höndum þess.
Sigríður var ennfremur spurð að því hvort hún teldi eitthvað hafa komið upp sem gæfi tilefni til þess að draga ákæruna til baka. Hún svaraði því til að það væri ekki hlutverk saksóknara Alþingis að endurmeta ákvörðun þingsins. Ákæruskjalið væri í raun aðeins formsatriði þar sem Alþingi hefði ákveðið að ákæra. Hendur saksóknara væru þar með mjög bundnar að því leyti.
Hún teldi hins vegar ekkert hafa komið fram í málinu sem gæfi tilefni til þess að taka málið til endurskoðunar. Helgi Magnús Gunnarsson, varasaksóknari Alþingis, sagði að frávísun á tveimur af sex ákæruliðum í málinu hefði þannig til að mynda ekki breytt málinu í grundvallaratriðum út frá þeim forsendum sem Alþingi lagði upp með.
Aðspurð hvort umfjöllun Alþingis um þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að draga ætti ákæruna til baka hefði áhrif á framgang málsins í höndum saksóknara sagði hún ekki telja að svo yrði enn sem komið væri allavega en þessi staða væri hins vegar mjög bagaleg fyrir störf hans og óþægileg.
Ef málið drægist á langinn sagðist Sigríður væntanlega þurfa að ráðfæra sig við forseta landsdóms um framhald þess. Helgi Magnús sagði ennfremur að það væri vitanlega ósk þeirra að botn yrði fenginn í málið sem fyrst á Alþingi.