Ekki meiri verðbólga í 20 mánuði

Alþýðusamband Ísland segir að verðbólgan hafi ekki verið hærri í …
Alþýðusamband Ísland segir að verðbólgan hafi ekki verið hærri í 20 mánuði. mbl.is/Eggert

ASÍ segir að verðbólgan  hafi ekki meiri frá því í maí 2010, en þá var hún 7,5%. Verðlag hækkaði um 0,28% frá desember og mælist ársverðbólga nú 6,5%. Þetta kemur fram í mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs sem birt var í morgun, segir ASÍ.

„Hækkanir á ýmsum þjónustugjöldum og álögum hjá ríki og sveitarfélögum skýra að mestu þessa hækkun auk hækkana á bensíni, matvöru, áfengi og tóbaki. Útsölur og lækkun á flugfargjöldum vega hins vegar aðeins upp á móti hækkunum,“ segir á vef ASÍ.

Séu verðbreytingar í janúarmánuði skoðaðar nánar megi sjá að mest hækki verð á opinberri þjónustu en í heildina hækki hún um 5,8% ( vísitöluáhrif 0,45%). Þar af hækki gjaldskrár orkuveitna fyrir rafmagn og hita um 1,6% (vísitöluáhrif 0,4%) og gjöld fyrir sorphirðu, holræsi og vatn um 12,6% (vísitöluáhrif 0,19%).

Þessu til viðbótar megi nefna að heilbrigðisþjónusta hækki um 1,7% ( vísitöluáhrif 0,03%) og félagsleg þjónusta hækki um ríflega 11,5% ( vísitöluáhrif 0,09%) en undir þann lið heyri t.a.m. leikskólagjöld. Þá hækki verð á mat- og drykkjarvörum um 0,9% frá fyrra mánuði (vísitöluáhrif 0,14%), mest vegna hækkana á ávöxtum og grænmeti og verð á bensíni og olíu hækkar um 5,2% ( vísitöluáhrif 0,3%).

Vetrarútsölur eru í fullum gangi og vega verðlækkanir vegna þeirra upp á móti. Mest lækkar verð á fötum og skóm á milli mánaða eða um 10,3% (vísitöluáhrif -0,61%). Þá lækkar verð á húsgögnum og heimilisbúanaði um ríflega 2,2% (vísitöluáhrif -0,14%) og flugfargjöld til útlanda lækka um 13,7%( vísitöluáhrif -0,15%), en sá liður sveiflast að jafnaði umtalsvert milli desember og janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert