„Þetta var einhvers konar stríðnislegur gjörningur og það var annars vegar búið að koma fyrir H&M-borða á einum stað og hins vegar McDonalds-borða á öðrum stað,“ segir Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri um prakkaragang sem virðist hafa átt sér stað í miðborginni í gær.
Árvökulir vegfarendur tóku eftir því í gærkvöldi að búið var að festa upp borða, þar sem tilkynnt var um að tískuvöruverslunin H&M væri væntanleg til landsins, í gluggum húsnæðisins efst á Laugavegi þar sem verslunin 17 var áður til húsa.
Fjölmiðlafulltrúi keðjunnar í Svíþjóð staðfesti hins vegar í morgun að ekkert væri til í þessum staðhæfingum.
En tilkynningar um komu erlendra stórfyrirtækja hingað til lands héngu víðar, því í gluggum verslunarhúsnæðis á horni Laugavegs og Klapparstígs, þar sem Fjallkonubakaríið var til húsa til skamms tíma, var búið að festa borða þar sem opnun McDonald's skyndibitastaðar var boðuð.
Búið er að taka niður H&M-borðana en McDonald's borðarnir eru enn á sínum stað, þar sem segir „opnar hér“ á hinum ýmsu tungumálum.
„Borðarnir voru festir upp að utan og þetta var gert án samráðs við eigendur eða þá sem hlut eiga að máli,“ sagði Jakob Frímann í samtali við mbl.is og sagði opnanir erlendra stórfyrirtækja hérlendis vera ýmsum mikið áhugamál.