Munu ekki afhenda upplýsingar

PIP-púðar
PIP-púðar Reuters

Lýtalæknar munu ekki afhenda landlækni persónugreinanlegar upplýsingar um allar konur sem farið hafa í brjóstastækkunaraðgerðir frá 1. janúar árið 2000 fyrr en þeir eru fullvissir um að slíkt sé heimilt samkvæmt lögum.

Kemur þetta fram í yfirlýsingu Læknafélags Íslands.

Læknafélagið ásamt Félagi íslenskra lýtalækna átti fund með landlækni 24. janúar sl. til þess að ræða nánar hið svokallaða PIP-mál.

Kemur jafnframt fram í yfirlýsingunni að Læknafélag Íslands hafi leitað leiðbeininga Persónuverndar vegna kröfu landlæknis um upplýsingarnar og þá staðreynd að svo virðist sem búa eigi til persónugreinanlega skrá með nöfnum allra kvenna sem gengist hafa undir brjóstastækkunaraðgerð frá 1. janúar 2000 til ársloka 2011.

Benda læknar á að þeir telji lagaheimildir landlæknis til persónugreinanlegra upplýsinga fyrir gildistöku laga um landlækni og lýðheilsu vera óskýrar.

Ennfremur benda læknar á í yfirlýsingunni að fjölmargar konur hafi leitað til lýtalækna og lagt bann við að persónugreinanlegar upplýsingar verði sendar til landlæknis.

Sameiginleg niðurstaða þeirra er fundinn sátu er því sú að bíða leiðbeininga eða úrskurðar Persónuverndar um það hvort lýtalæknum sé yfirhöfuð heimilt að senda umbeðnar upplýsingar.

Þá ítrekar Læknafélag Íslands og Félag íslenskra lýtalækna að þau hafi enga persónulegra hagsmuna að gæta af því að veita ekki umbeðnar upplýsingar. Mikilvægt sé að engin óvissa ríki um heimild lýtalækna til upplýsingagjafar þar sem refsi- og bótaábyrgð kann að fylgja því að gefa persónugreinanlegar upplýsingar um sjúklinga.

Þá er fólki bent á að Læknafélag Íslands hefur tekið saman greinargerð vegna málsins og birtir hana á heimasíðu sinni. Einnig er þar að finna bréf sem send hafa verið vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert