Björgunarsveitarmenn eru búnir að aðstoða og flytja ökumenn sem sátu fastir við Litlu kaffistofuna. Fólkið var bæði flutt til borgarinnar og til Hveragerðis. Á annan tug bíla festust á svæðinu og þar eru þeir enn.
Líkt og fram hefur komið er búið að loka Hellisheiðinni, Þrengslum og Sandskeiði um óákveðinn tíma. Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að á Hellisheiði og í Þrengslum sé ekki útlit fyrir að veður taki að lagast fyrr en vindur gangi niður undir kvöldmat.
Guðjón Geir Einarsson hjá björgunarsveitinni Ársæli segir í samtali við mbl.is að aðgerðir á vettvangi hafi gengið vel. „Það er búið að ná öllum niður af heiðinni,“ segir hann.
Aðspurður segir Guðjón að á bilinu 15 til 20 bílar séu fastir við Litlu kaffistofuna. Ekki liggur fyrir hversu marga einstaklinga björgunarsveitin hafi aðstoðað. Björgunarsveitin Ársæll var kölluð út um kl. 11.
Hann segir að sex björgunarsveitarmenn á þremur tækjum séu enn á vettvangi, en búast megi við að þeir verði þarna fram eftir degi. „Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Guðjón.
Slysavarnafélagið Landsbjörg segir að björgunarsveitir frá Hveragerði, Eyrarbakka og höfuðborgarsvæðinu hafi verið kallaðar út til aðstoðar á Hellisheiði og í Þrengslum. Enn eru björgunarsveitir frá Hveragerði og Eyrarbakka að störfum.
Búið er að loka Hellisheiðinni, Þrengslum og Sandskeiði um óákveðinn tíma. Á Hellisheiði og í Þrengslum er ekki útlit fyrir að veður taki að lagast fyrr en vindur gengur niður undir kvöldmat.