Fréttaskýring: Tillagan ekki afskipti af dómsmáli

Saksóknarar Alþingis á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Saksóknarar Alþingis á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Kristinn

Fram kom með afdráttarlausum hætti í máli Sigríðar J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins í gærmorgun að Alþingi færi með ákæruvaldið í landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og gæti þar með hvenær sem er afturkallað ákæruna allt fram að því að dómur fellur í málinu.

Ákæruvaldið í málinu væri þannig ekki í höndum saksóknara Alþingis. Þá sagði Sigríður ennfremur við fjölmiðla að loknum fundinum að það fæli að hennar áliti ekki í sér íhlutun í dómsmál þótt Alþingi tæki þá ákvörðun að falla frá ákærunni á hendur Geir.

Miklar umræður sköpuðust um málið á Alþingi síðastliðinn föstudag í aðdraganda atkvæðagreiðslu í þinginu um það hvort vísa ætti frá þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að draga til baka landsdómsákæruna. Töldu margir þeirra sem vildu málið af dagskrá þingsins að tillagan væri ekki þingleg og hefði ekki átt að vera tekin á dagskrána. Þá var því einnig haldið mjög á lofti að Alþingi gæti ekki fallið frá ákærunni þegar hún hefði einu sinni verið samþykkt. Ákæruvaldið hefði þá verið framselt til saksóknara Alþingis. Því var ennfremur haldið fram að um óeðlileg afskipti þingsins af dómsmáli væri að ræða og ennfremur að engar efnislegar breytingar hefðu orðið á málinu sem réttlættu að fallið væri frá því.

Sigríður sagðist ekki telja að neinar efnislegar breytingar hefðu orðið á málinu í grundvallaratriðum frá því sem Alþingi hefði lagt upp með í byrjun sem gæfu tilefni til þess að falla frá ákærunni og undir það tók Helgi Magnús Gunnarsson varasaksóknari. Hún lagði þó áherslu á að ekki væri um persónulegt eða faglegt mat þeirra að ræða í því sambandi. Alþingi hefði ákveðið að ákæra í málinu og það væri ekki þeirra hlutverk að endurmeta ákvörðun þingsins.

Mikilvægt að fá niðurstöðu

Spurð hvaða áhrif það hefði á rekstur dómsmálsins að þingsályktunartillaga um að falla frá því væri til umfjöllunar á Alþingi sagði Sigríður að það hefði ekki áhrif enn sem komið er en að þessi staða væri auðvitað bagaleg og óþægileg. Ef málið væri enn óafgreitt á Alþingi 5. mars næstkomandi, þegar það verður dómtekið og vitnaleiðslur hefjast, sagðist hún væntanlega þurfa að ráðfæra sig við forseta Landsdóms um framhaldið. Helgi bætti því við að það væri auðvitað ósk þeirra að niðurstaða fengist á Alþingi sem fyrst.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði að því á fundi nefndarinnar hvort það fyrirkomulag sem væri á Landsdómi færi saman við réttarríkið og þá meðal annars í ljósi þess að ekki hefði verið framkvæmd nein eiginleg sakamálarannsókn áður en gefin var út ákæra. Þau svör fengust frá Sigríði og Helga að fyrirkomulagið í kringum dómstólinn væri á margan hátt sérstakt og ekki að öllu leyti í samræmi við meginreglur sakamálaréttar. Hins vegar lögðu þau áherslu á að hlutverk þeirra væri einfaldlega að fylgja því sem fram kæmi í lögum. Ef slík sakamálrannsókn hefði átt að fara fram hefði það þurft að gerast áður en Alþingi tók ákvörðun um að ákæra í málinu og það kom inn á borð saksóknara Alþingis.

Þá sagði Helgi að það sem máli skipti varðandi dómsmálið væri fyrst og síðast hvort líkur teldust á sekt eða sýknu. Hann sagði ýmis sjónarmið sem komið hefðu fram í umræðunni um það hvort halda ætti dómsmálinu til streitu, eins og að það væri gott fyrir Geir að fá tækifæri til þess að verja sig fyrir Landsdómi og að málið væri uppgjör vegna bankahrunsins, ekki hafa neina þýðingu í tengslum við málið.

Enn frekari staðfesting

„Ég hef talið þetta mjög skýrt en það er gott að fá það staðfest enn frekar af saksóknara Alþingis og að hún líti málið sömu augum,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um þau ummæli saksóknara Alþingis að Alþingi geti tekið ákvörðun um að falla frá ákæru í landsdómsmálinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tekur undir þetta og segir að sé ekki lengur vilji hjá meirihluta Alþingis til þess að ákæra í málinu sé eðlilegt að málið sé endurskoðað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka