Íslenska landhelgisgæslan hefði ekki getað farið til bjargar Hallgrími SI-77 hefði skipið sokkið innan íslenska leitar- og björgunarsvæðisins. Samkvæmt verklagsreglu í flugrekstrarhandbók Landhelgisgæslunnar, sem er samþykkt af Flugmálastjórn, mega þyrlur Gæslunnar ekki fljúga meira en 20 sjómílur frá strönd landsins nema þær fari tvær saman. Aðeins ein björgunarþyrla er tiltæk.
Hjalti Sæmundsson, aðalvarðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, segir að Gæslan hafi leitað til norsku standgæslunnar um björgun, þótt skipið hefði ekki verið komið út af íslenska leitarsvæðinu. Ávallt sé leitað til björgunaraðila sem eru í bestu aðstöðunni til að koma til bjargar.
Ekki hefði verið hægt að kalla til þyrlu frá Færeyjum til björgunar því flugþol þyrlunnar þar er ekki nægilega mikið.
Hallgrímur SI var kominn um 20 sjómílur inn í norska leitar- og björgunarsvæðið þegar hann sökk.
Hjalti segir að Gæslan hafi verið með tvöfalda vöktun á skipinu. Fyrst hafi borist skeyti frá neyðarsendi um borð. Stundarfjórðungi síðar hafi skipið horfið úr ferilvöktun.
Hjalti segir að samstarf sé meðal björgunarmiðstöðvanna í Bretlandi, Noregi, Íslandi og Færeyjum og vinni þær samkvæmt alþjóðlegu leitar- og björgunarkerfi. Strax hafi verið haft samband við stjórnstöðina í Noregi þar sem mestar líkur hafi verið á að hægt væri að bjarga skipverjunum þaðan. Raunar fékk norska stjórnstöðin einnig boð frá sjálfvirka neyðarsendinum. „Við veljum alltaf hagstæðasta kostinn út frá hagsmunum þeirra sem hlut eiga að máli,“ segir Hjalti.
Ef skipið hefði farist nær Íslandi hefur gæslan ýmis úrræði. Þegar svona kemur upp er leitað til nálægra skipa og varðskipa Landhelgisgæslunnar. Eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, Sif, er tiltæk en aðeins ein björgunarþyrla, Gná. Hin björgunarþyrlan, Líf, er í stórri skoðun í Noregi og leiguþyrlan, sem kölluð verður Sýn, er ekki komin til landsins. Sýn verður auk þess ekki búin til flugs með nætursjónauka sem skerðir björgunargetu sveitarinnar.
Landhelgisgæslan vinnur samkvæmt reglum Flugmálastjórnar um að þyrlur megi ekki fljúga meira en 20 sjómílur frá strönd landsins nema tvær fari saman. Augljóst er að ekki hefði verið hægt að koma við björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar á slysstað Hallgríms SI.
Þegar Landhelgisgæslan tilkynnti að gengið hefði verið frá leigu nýju þyrlunnar kom fram að verið væri að leggja lokahönd á skoðun og skráningu þyrlunnar og gert ráð fyrir að henni yrði flogið til Íslands í þessari viku. Áður hafði komið fram að hún yrði væntanlega tilbúin um eða upp úr miðjum næsta mánuði. Ekki fást nánari upplýsingar hjá Landhelgisgæslunni um það hvenær leiguþyrlan verður tilbúin til notkunar.