6.000 tonn af sælgæti

mbl.is/Ómar

Sælgætisneysla landsmanna er almennt mikil borin saman við aðrar Norðurlandaþjóðir, eða að meðaltali um 400 g á hvern íbúa á viku. Landlæknisembætið segir ljóst að stór hluti þjóðarinnar borði mun meira sælgæti þar sem þetta sé meðaltalsmagn. Ungbörn og eldra fólk borði minna sælgæti en aðrir aldursflokkar.

Fram kemur á vef embættisins að tannverndarvikan hefjist í næstu viku, en hún stendur frá 29. janúar til 4 febrúar. Í ár verðum sjónum beint að sælgætisneyslu og ógn hennar við tannheilsu landsmanna.

„Sú venja hefur skapast hjá mörgum að fá sér sælgæti til að gera sér dagamun. Í flestum matvöruverslunum er sælgætið selt eftir vigt í sjálfsafgreiðslu. Boðið er upp á pokastærðir sem geta tekið mikið magn og um helgar er víða veittur helmingsafsláttur. Þessir þættir geta haft mikil áhrif á það magn sem borðað er. Heildarframboð sælgætis á ári hverju hér á landi er um 6.000 tonn,“ segir á vef landlæknisembættisins.

Þá kemur fram að tannskemmdir séu algengari hjá börnum og unglingum hérlendis en annars staðar á Norðurlöndum. Tólf ára börn séu að meðaltali með rúmlega tvær skemmdar eða viðgerðar fullorðinstennur og fimmtán ára unglingar með rúmlega fjórar að meðaltali. Þessar niðurstöður gefi tilefni til að efla vitund landsmanna um tannheilbrigði og góðar neysluvenjur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert