„Eins og eftir gott rifrildi“

Andrés Jónsson almannatengill segir meðferð tillögu um landsfund vorið 2012 …
Andrés Jónsson almannatengill segir meðferð tillögu um landsfund vorið 2012 hafa hreinsað andrúmsloftið innan flokksins. mbl.is/Eggert

Ánægja ríkir innan Samfylkingarinnar í kjölfar þess að tillaga um landsfund  var dregin til baka á flokkstjórnarfundi í dag. Andrés Jónsson, einn flutningsmanna tillögunnar, segir samstöðu hafa ríkt innan hópsins um að draga hana til baka. Að hans sögn hefur tilgangi tillögunnar verið náð. „Nú er umræðan komin á fullt.“

„Enginn augljós arftaki formanns hefur gert vart við sig. Möguleg formannsefni þurfa tíma til að gefa sig fram og við til að máta þau við hlutverkið,“ segir Andrés í samtali við mbl.is.

Andrés vill ekki meina að þrýstingur frá flokkssystkinum hafi gert það að verkum að tillagan var dregin til baka. „Það voru miklu frekar hin jákvæðu viðbrögð sem við fengum við okkar grunnmálflutningi, sem snerist um það að hefja samtal innan flokksins um forystu hans.“

Í greinargerð sem fylgdi tillögunni kom fram að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefði nýverið lýst því yfir í viðtali í Viðskiptablaðinu að þörf væri á að endurnýja forystu flokksins fyrir næstu kosningar.

Að sögn Andrésar er ekkert sem kallar á að skipt verði um forystu strax í vor. „Það sem tillagan snerist um var að fá fram hugmyndir um hvaða liði við ætlum að stilla upp og hvaða hugmyndir við ætlum að kynna í næstu kosningum,“ segir Andrés.

„Forystan virðist hafa vaknað til lífsins innan flokksins.“

Tillagan ekki vantraustsyfirlýsing

Andrés segist hafa trú á því að þau fyrirheit sem hópnum voru gefin um vinnubrögð á næstunni verði efnd. Andrés segir núverandi kjörtímabil vera sérstakt að mörgu leyti. „Þetta snýst um að hreinsa til og koma ríkisbúskapnum í jafnvægi. Vonandi verðum við ekki enn stödd þar í næstu kosningum og getum farið að hugsa til framtíðar,“ segir hann.

Forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur hefur að mati Andrésar sömu leiðis haft sérstöðu að mörgu leyti. „Hún hefur að mínu mati fullt umboð frá þjóðinni til þeirra verka sem hún var kosin til.“ Tillagan hafi aldrei átt að vera vantraust á hennar störf sem slík.

„Hún hefur þó auðvitað sína galla, en af því að allir eru henni þakklátir þá þorir enginn að hreyfa andmælum og það var það sem kominn var tími á að ræða. Ég tel að þetta veiki hennar stöðu ekki.“

Andrés vill meina að atburðarásin í kringum tillöguna hafi hreinsað andrúmsloftið. „Þetta er eins og eftir gott rifrildi, þá er andrúmsloftið mótað af sátt og samlyndi.“

Flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar lauk nú á sjötta tímanum.

Andrés Jónsson.
Andrés Jónsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert