Verði þróun efnahagsmála í heiminum ekki þeim mun verri er hófleg bjartsýni á að þau markmið kjarasamninga að fjárfestingar nemi 20% af landsframleiðslu við lok samningstímans árið 2013 og atvinnuleysi fari í 4-5% náist. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, í setningarræðu sinni á flokksstjórnarfundi flokksins í morgun.
„Til að svo megi verða þurfa allar greinar atvinnulífsins að fá tækifæri til að blómstra, ekki síst hugverkaiðnaður, ferðaþjónusta, skapandi greinar og græn atvinnuuppbygging. Þannig náum við varanlegum sjálfbærum hagvexti. Þannig náum við þeim lífskjörum og lífsháttum sem okkar unga fólk gerir tilkall til,“ sagði Jóhanna í morgun.
Í ræðu hennar kom meðal annars fram að á annan tug fjárfestingasamninga séu nú til skoðunar eða hafi þegar verið undirritaðir og séu að koma til framkvæmda, á grundvelli laga um slíka samninga sem tóku gildi um mitt ár 2010. Umfang þeirra verkefna sem þar séu undir gæti slagað hátt í 200 milljarða króna kæmu þau öll til framkvæmda á næstu árum.