„Ég vil sjá að arfleifð þessarar fyrstu meirihlutastjórnar vinstrimanna verði að hún kláraði málin, kláraði kjörtímabilið, kláraði stóru verkefnin,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í setningarræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar. Yfirskrift fundarins er „Forgangsverkefni í atvinnu- og efnahagsmálum“.
Jóhanna segir það ár sem eftir lifir af kjörtímabili ríkisstjórnarinnar ráði úrslitum um arfleifð fyrstu meirihlutastjórnar félagshyggjufólks og jafnaðarmanna á Íslandi. Hún vilji að ríkisstjórnin klári stór mál sem framundan eru eins og nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi, nýja stjórnarskrá, ljúka aðildarumsókninni að ESB og ljúka rammaáætlun um auðlindamál þjóðarinnar með áherslu á almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni.
Þá segir Jóhanna að nú sé unnið að því leynt og ljóst að koma íhaldinu aftur til valda áður en jafnaðarmenn nái að koma þessum málum í framkvæmd.
„Bilum við á endasprettinum getum við jafnaðarmenn og þjóðin öll gleymt því að þessi stærstu mál okkar jafnaðarmanna verði að veruleika í náinni framtíð. Ef við bilum á endasprettinum, eftir að hafa skúrað og skrúbbað ófögnuðinn eftir íhaldið og framsókn og sáð frjókornum endurreisnar um allt, mun uppskera alls erfiðisins rata í þeirra hlöður,“ segir Jóhanna.
Takist ríkisstjórninni að ljúka þessum ætlunarverkum sínum segir Jóhanna að flokkurinn þurfi í engu að kvíða kosningum á næsta ári.
„Þær kosningar munu fyrst og síðast snúast um það hvernig sú ríkisstjórn sem nú starfar, og þeir flokkar sem að henni standa, nýttu það sögulega tækifæri sem þeir fengu í síðustu alþingiskosningum - til að reisa íslenskt samfélag úr rústum hugmyndnfræði Sjálfstæðisflokksins og koma því kirfilega á braut jafnaðarstefnunnar,“ segir Jóhanna.
Flokksstjórnarfundir eru opnir öllum félögum í Samfylkingunni en aðeins flokksstjórnafulltrúar hafa atkvæðisrétt.
Í flokksstjórn Samfylkingarinnar eiga sæti um 210 manns; framkvæmdastjórn flokksins, fulltrúar kjörnir á landsfundi, fulltrúar kjörnir af kjördæmaráðum, formenn aðildarfélaga, formenn kjördæma- og fulltrúaráða, stjórn verkalýðsmálaráðs, sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar og þingmenn flokksins.