Lilja Mósesdóttir þingmaður segist ekki hafa séð nein efnisleg rök fyrir því að draga til baka ákæruna á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Þetta kom fram í máli Lilju í Silfri Egils.
Hún segist hins vegar ekki vera viss um að atkvæði verði greidd um það á Alþingi þar sem fjöldi mála komi aldrei úr nefnd.
Soffía Sigurðardóttir frá Samfylkingunni var einnig í þættinum og hún segist ekki sjá nein rök fyrir því að draga ákæruna til baka.
Jón Magnússon, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það vanti upp á að þeir sem tjái sig um málið skoði hvað standi eftir af málinu. Hann segir að það sem eftir standi af ákærunni snerti ekki hrunið neitt. Það hafi sýnt sig í umræðum á Alþingi hversu mikil pólitík sé að baki ákvörðun ýmissa þingmanna. Hann hrósaði grein Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um hrunið sem birt var í Morgunblaðinu nýverið.
Jón segist sannfærður um að Geir verði sýknaður og það sé ekki hægt að gera einstaklingi að sitja undir svo heimskulegri ákæru. Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur og kennari við Háskóla Íslands, tók í svipaðan streng og Jón í Silfri Egils.