Vonar að nýr meirihluti myndist fyrir vikulok

Af fundi bæjarstjórnar Kópavogs.
Af fundi bæjarstjórnar Kópavogs. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Við hittumst óformlega á föstudaginn og svo notuðum við daginn í gær til þess að ræða við okkar bakland og ræða málin saman í okkar eigin rammi,“ segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, og bætir við: „Við stefnum síðan á fund í dag og við munum mögulega taka ákvörðun á þeim fundi hvort við förum í formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna.“

Að sögn Guðríðar er hún vongóð um það að samstaða náist á milli listanna þriggja ef fulltrúar þeirra leggja sig fram í viðræðunum og eru ákveðnir í að láta þær ganga upp. „Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ segir Guðríður.

Aðspurð hvaða kröfur Samfylkingin geri í meirihlutaviðræðunum segir Guðríður að hún vilji ekki gefa það upp opinberlega að svo stöddu, hún tekur jafnframt fram að ekki sé enn farið að ræða það hver taki við bæjarstjórastólnum ef af samstarfinu verður. Guðríður segist eiga von á því að fulltrúar listanna þriggja fari á fund saman í dag en bendir þó á að ekkert hafi verið ákveðið um slíkt.

„Ég vona það. Ég held að við ættum að stefna að því. Það er þó engu hægt að lofa,“ segir Guðríður, aðspurð hvort hún telji líkur á því að það takist að mynda nýjan meirihluta fyrir lok næstu viku.

Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert