Cameron ferðafélagi forsetans

Ólafur Ragnar Grímsson og James Cameron.
Ólafur Ragnar Grímsson og James Cameron.

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn James Cameron, leikstjóri metsölumynda á borð við Terminator, Titanic og Avatar er í hópi ríflega hundrað manna könnunarhóps sem fylgir Al Gore og Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, til suðurskautsins. Breski auðkýfingurinn Richard Branson er einnig með í för.

Talsvert er fjallað um förina í vefmiðlum og má nefna að nýsjálenski fréttavefurinn Stuff.co.nz segir ítarlega frá leiðangrinum.

Siglt er til suðurskautsins frá Ushuaia í Síle á skipinu National Geographic Explorer. Lagt var frá höfn 29. janúar og er heimkoma áætluð 6. febrúar eða á mánudaginn kemur.

Fjórfalt hraðari en heimsmeðaltalið

Haft er eftir Gore, forsetaefni demókrata í forsetakosningunum 2000, að hlýnunin á vesturhluta suðurskautsins sé um fjórfalt hraðari en heimsmeðaltalið. Bráðnun ísþekjunnar kunni að hafa hnattræn áhrif á næstu áratugum.

Þá er haft eftir ráðuneyti Tokyo Sexwale, ráðherra sem sinnir skipulagsmálum í suðurafrísku ríkisstjórninni, á öðrum nýsjálenskum vef, að tilgangurinn með leiðangrinum sé að kveða niður efasemdir um að veðurfar á jörðu fari hlýnandi.

En Sexwale sat á bak við lás og slá Robben-eyju fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnunni á sama tíma og Nelson Mandela, frelsishetja Suður-Afríku og raunar allrar Afríku.

Áhugasamir geta lesið blogg Gore um ferðina hér en þar kemur m.a. fram að margt hafi breyst á suðurskautinu síðan hann fór þangað fyrst fyrir 22 árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert