Fjármálaráðherra sagðist á Alþingi í dag trúa því að ekkert við endurreisn bankanna þoli ekki skoðun. Hún sagði sjálfsagt ef tortryggni ríkir að skoða málið aftur á bak og áfram. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, óskaði Alþingi til hamingju með stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar.
Guðlaugur Þór benti á að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar hefðu í hyggju að leggja fram þingmál um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Hann sagðist fagna því og sagði jafnframt að einkavæðingin árið 2002 bliknaði í samanburði við aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í þágu fjármálafyrirtækja. „Munurinn er sá að árið 2002 var ferlið gallað og ónógt eftirlit, en núna er ekkert ferli og ekkert eftirlit.“ Þá spurði hann Oddnýju G. Harðardóttur, fjármálaráðherra, hvort ekki þyrfti að rannsaka þær aðgerðir.
Oddný sagði rangt að tala um endurreisn bankakerfisins sem einkavæðingu, verið væri að endurreisa banka sem þegar voru einkavæddir. Þá sagði hún Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafa gefið út ágætis skýrslu um endurreisn bankakerfisins en ef eitthvað vanti þar upp á sem Guðlaugur Þór sakni ætli hún að setja sig inn í málið og koma með upplýsingar sem það varða.
„Hér erum við að upplifa mestu stefnubreytingu hjá þessari ríkisstjórn sem hefur gerst,“ sagði Guðlaugur Þór og bætti við að nú ætlaði ráðherra að upplýsa. Guðlaugur sagðist afskaplega glaður með þessar fréttir og að hann hlakki til að vinna með fjármálaráðherra að því að upplýsa mál sem allir hafi beðið eftir og rædd hafi verið í mörg ár án þess að nokkur viti staðreyndir mála.
Oddný sagði þá, að sér þættu gleðilæti Guðlaugs heldur mikil. Hún sagðist ætla að kynna sér málið og upplýsa allt sem mögulega sé hægt að upplýsa. Hins vegar gætu vel verið einhverjar viðkvæmar upplýsingar sem ekki væri hægt að upplýsa. Hún sagðist engu að síður fagna rannsókn á því hvernig bankakerfið var endurreist eftir stórkostlegt hrun.