Kínverjar vilja nálgast Ísland

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur lengi ræktað tengsl sín …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur lengi ræktað tengsl sín við Kína. Hér tekur hann á móti Jiang Zemin, fyrrverandi Kínaforseta, fyrir um áratug. Árni Sæberg

Kínverjar vilja efla efnahagssamvinnu risaríkisins við Ísland og halda samskiptum forystumanna landanna áfram. Þetta kemur fram í endursögn kínversks netmiðils af fundi Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, og Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, nýverið.

Vitnað er óbeint til Wen forsætisráðherra í endursögn á frétt Xinhua, fréttastofu á bandi kínverska kommúnistaflokksins, í spænskri útgáfu eins málgagna Kínastjórnar. 

Segir þar að til að takast á við fjármálakreppuna skuli ríkin tvö leita tækifæra til að efla tiltrú markaðanna, auka verslun og viðskipti ríkjanna og stuðla að aukinni fjárfestingu í báðum ríkjum. Þá boðar kínverski leiðtoginn aukna samvinnu ríkjanna á sviði menningar, menntamála og í ferðaþjónustu.

Ekki vikið að ferðaþættinum

Sagt er frá fundinum á forsetavefnum og er þar ekki vikið að áhuga Kínverja á að auka umsvif sín í íslenskri ferðaþjónustu. En sóknarfærin eru miklu meiri í þá áttina en hina, enda eru kínverskir auðmenn orðnir fleiri en Íslendingar samanlagt, svo dæmi sé tekið.

Wen og Ólafur Ragnar hittust að máli á Heimsþingi um hreina orku í Persaflóaríkinu Abu Dhabi um miðjan janúarmánuð. Tímasetningin á umræðuefnunum er því athyglisverð enda skammt síðan fyrirhuguð kaup kínverska auðkýfingsins Huang Nubo voru í algleymingi en þau voru einmitt í ferðaþjónustu, þeirri grein sem Wen forsætisráðherra tiltekur sérstaklega, að sögn spænska fréttavefjarins Pueblo en Línea, spænskri útgáfu af People's Daily, málgagni kínverska kommúnistaflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert