Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar var haldinn á laugardag. Auk meginefna fundarins; atvinnu- og efnahagsmála, stóð til að taka fyrir tillögu níu flutningsmanna þess efnis að framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar hæfi undirbúning að landsfundi sem haldinn yrði á komandi vormánuðum.
Með tillögunni fylgdi greinargerð en í henni kom m.a. fram að utanríkisráðherra hefði nýverið lýst því yfir í blaðaviðtali að þörf væri á endurnýjun forystu flokksins fyrir næstu kosningar.
Ekkert varð úr tillögunni þar sem hún var dregin til baka á fundinum og bera flutningsmenn hennar fyrir sig að markmið tillögunnar; að skapa umræðu um framtíð og forystu flokksins, hafi náðst og því hafi hún verið dregin til baka. Þá hafi tillagan aldrei átt að vera vantraustsyfirlýsing.
„Tillagan var lögð fram með það fyrir augum að opna þessa umræðu. Að það þyrfti að skipta um forystu og endurnýja stefnu og hugmyndir fyrir næstu kosningar,“ segir Andrés Jónsson, einn af flutningsmönnum tillögunnar, og bætir við að flokkurinn hafi brugðist við umræðukröfunni en jafnframt hafi ákveðin hugmyndavinna þegar farið af stað. Þá þvertekur hann fyrir að yfirstjórn Samfylkingar hafi þrýst á hópinn um að draga tillögu sína til baka. „Yfirstjórn Samfylkingar vaknaði svolítið til lífsins og tók til varna en þessi umræða komst upp á yfirborðið. Það er jákvætt.“
Andrés bendir á að þrátt fyrir að ekki sé um eiginlega vantraustsyfirlýsingu að ræða á hendur núverandi formanni og forsætisráðherra, þá sé krafan um nýja forystu í næstu kosningum óbreytt. „Það ferli að velja nýjan formann er farið af stað. Þótt óformlegt sé,“ segir Andrés en að hans mati er enginn einn augljós arftaki formanns í augsýn.
Þá er hópurinn að sögn hans staðráðinn í að veita yfirstjórn Samfylkingarinnar áframhaldandi aðhald og þrátt fyrir fyrri ákvörðun, að draga tillöguna til baka, er auðgert að endurtaka leikinn. „Ef við teljum aftur að þörf sé að vekja upp umræðuna á ný, þá munum við bara gera það. Þó að við séum kannski sátt á þessum tímapunkti þá þýðir það ekki að það geti ekki breyst,“ segir Andrés.
Hann segir marga vera ósátta innan flokksins með þá stefnu sem ríkisstjórnarsamstarfið hefur tekið. „Það hafa verið dálítið brogaðar forsendur. Við erum ekki að höfða til nógu breiðs hóps með málflutningi okkar og liðsuppstillingu. Við þurfum að höfða bæði til vinstri og inn á miðjuna,“ segir Andrés sem bætir við að flokkurinn hafi verið að missa fólk fyrir borð en slík þróun er mikið áhyggjuefni að hans mati.
Forsætisráðherra bað um stuðning flokksmanna sinna til að klára stóru málin sem bíða lausnar. En Andrés segir að sú vinna hafi því miður dregist um of. Vísar hann hér í mál er snerta breytingar á kvótakerfi, breytingar á stjórnarskrá og atvinnumál þjóðarinnar. „Þetta hefur gengið allt of hægt. Mér líst ekki á það að fara í næstu kosningar ef þessi stjórn hefur ekki náð að gera umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfinu og mér líst heldur ekki á það ef stjórnarskrármálið klúðrast.“ Takist ekki að afgreiða þessi veigamiklu mál reiknar Andrés með að Samfylkingunni verði harkalega refsað í næstu alþingiskosningum. „Það er mikið í húfi og ég vona að Jóhanna taki okkar brýningu. Hún má aðeins hlusta á félaga sína og tala meira við okkur.“
Þá kom mál Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur þingforseta einnig til tals á fundinum og segir Andrés hana hafa komið í pontu og fært rök fyrir sinni afstöðu í landsdómsmálinu sem þingforseti.
» Sá tími sem eftir lifir kjörtímabils mun ráða úrslitum um arfleifð fyrstu ríkisstjórnar jafnaðarmanna og félagshyggjufólks á Íslandi.
» Arfleifðin verði sú að ríkisstjórnin kláraði stóru málin og kjörtímabilið.
» „Látum ekki íhaldið reka fleyg í okkar raðir. Tilgangurinn er auðvitað sá að kalla fram kosningar sem fyrst.“
» Takist ríkisstjórn að ljúka ætlunarverkum sínum þarf hún engu að kvíða í næstu kosningum.