Ólafur Ragnar og Al Gore til Suðurskautslandsins

Adele-mörgæsir á Royds-höfða á Suðurskautslandinu.
Adele-mörgæsir á Royds-höfða á Suðurskautslandinu. AP

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur þegið boð Al Gore, Nóbelsverðlaunahafa og fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, um að taka þátt í leiðangri vísindamanna og forystufólks í baráttunni gegn loftslagsbreytingum til Suðurskautslandsins.

Markmið leiðangursins er að kanna hina hröðu bráðnun íss og ræða hvernig unnt er að fá þjóðir heims til að sameinast í raunhæfum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Hann er skipulagður af Loftslagsstofnun Al Gore, The Climate Reality Project, og tímaritinu National Geographic segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

James Cameron og Ted Turner meðal leiðangursmanna

Meðal þátttakenda í leiðangrinum eru James Hansen, yfirmaður vísindamála hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna og einn helsti sérfræðingur heims á þessu sviði, Yao Tandong, fremsti jöklafræðingur Kína, Christiana Figueres, framkvæmdastjóri Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), vísindamenn frá Harvard háskóla og háskólum í Evrópu, áhrifafólk í fjölmiðlum og kvikmyndagerð, m.a. James Cameron, leikstjóri kvikmyndanna Titanic og Avatar, og Ted Turner, stofnandi CNN, sem og stjórnendur ýmissa stofnana og sjóða sem helgað hafa krafta sína baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Einnig mun Hasan Mahmud, umhverfisráðherra Bangladess, taka þátt í ferðinni en verulegur hluti lands hans mun hverfa í sjó þegar áframhaldandi bráðnun íss á Suðurskautinu og á Grænlandi hækkar sjávarborð um allan heim.

Leiðangrinum, sem hófst í gær, sunnudaginn 29. janúar, lýkur mánudaginn 6. febrúar og verður siglt á könnunarskipinu National Geographic Explorer.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert