Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag að hann ætlaði að standa fast á hagsmunum Íslendinga í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Þá hefði hann áhuga á að fá eiginlegar samningaviðræður um stærstu hagsmunamál Íslendinga, sjávarútveg og landbúnað, sem fyrst í gang þannig að þar geti farið að reyna á í eiginlegum viðræðum og menn komist af því undirbúningsstigi, sem þar hafi verið í gangi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks, hafði spurt Steingrím um það sem hann kallaði frægarðferð til Brussel og sagt að menn sæju það nú hvers vegna heimsókn Jóns Bjarnasonar til Brussel hefði verið afþökkuð. Menn hefðu væntanlega fengið að vita af því að von væri á öðrum ráðherra í hans stað sem þægilegra væri að ræða við. Að minnsta kosti væri ljóst að samskiptin við Evrópusambandið væru farin á fullan skrið að nýju.
Steingrímur sagði, að heimsókn hans til Brussel í síðustu viku hefði verið undirbúin í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar. Þegar ráðherraskiptin urðu um áramótin hefðu tímasetningar fundanna þegar legið fyrir sem og flestir viðmælendur. Sagði Steingrímur vangaveltur Sigmundar Davíðs um tilfærslu fundanna í Brussel vera þvælu.