Gera úttekt á læknastofum

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ákveðið að stofna ráðgjafahóp til að fara í saumana á faglegum þáttum í starfsemi einkarekinna læknastofa og gera tillögur til úrbóta eftir því sem þörf krefur. Ráðherra kynnti ákvörðun sína á fundi ríkisstjórnar í dag. 

Kveikjan að stofnun ráðgjafahópsins er margvísleg álitaefni sem upp hafa komið í tengslum við innflutning og notkun frönsku PIP-brjóstapúðanna sem mikið hafa verið til umræðu að undanförnu, segir á vef ráðuneytisins.

Velferðarráðherra hefur falið Magnúsi Péturssyni ríkissáttasemjara verkstjórn yfir starfi ráðgjafahópsins. Stefnt er að því að hópurinn skili ráðherra tillögum sínum í maí næstkomandi.

Velferðarráðherra segir þetta mál hafa vakið upp fjölmargar spurningar sem tengist einkarekstri í heilbrigðisþjónustu almennt, einkum vegna þjónustu sem veitt er án greiðsluþátttöku ríkisins: „Heilbrigðisyfirvöldum í landinu er skylt að sinna eftirliti með gæðum allrar heilbrigðisþjónustu í landinu og þá verður líka að vera tryggt að eftirlitsaðilar hafi aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru til að sinna því á fullnægjandi hátt. Ýmsum spurningum þarf líka að svara varðandi innflutning og notkun á lækningavörum, hagsmunatengsl og hagsmunaárekstra, örugga og samræmda skráningu, upplýsingagjöf til eftirlitsaðila og margt fleira,“ segir á vef velferðarráðuneytisins.

Ráðgjafahópnum verður falið að draga upp mynd af starfsemi læknastofa sem veita heilbrigðisþjónustu. Tekur þetta til upplýsinga um starfsleyfi, skráningu, vörunotkunar og innflutnings, vottunar og gæða þeirrar vöru sem notuð er, hagsmunatengsla og fleira.

Áhersla er lögð á að nálgast fyrst þá þætti einkarekinnar heilbrigðisþjónustu þar sem mest reynir á öryggi sjúklinga og því mun athugunin í upphafi beinast að starfsemi einkarekinna læknastofa. Til greina kemur þó að ráðgjafahópurinn víkki út verkefnið þannig að athugunin nái til fleiri rekstraraðila og starfsstétta telji hann þörf á því.

Ráðgjafahópnum er falið að leggja fram tillögur um aðgerðir til úrbóta varðandi umrædda starfsemi og geta falist í tillögum til breytinga á lögum, reglugerðum eða sem fyrirmæli og samkomulag sem líklegt er að leiði til árangurs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert