Öll olíufélög hafa hækkað verð á bensíni um 3-4 krónur lítrann. Er verð á bensíni í sjálfsafgreiðslu hjá Shell komið í 247,90 krónur lítrinn og er það hæsta bensínverð í krónum talið, sem sést hefur hér á landi.
Er þá miðað við sjálfsafgreiðslu en 98 oktana bensín kostar 265,50 krónur lítrinn hjá Shell með þjónustu.
N1 reið á vaðið í gær og hækkaði verð á bensíni um 4 krónur lítrann. Sagði talsmaður félagsins að helstu ástæður hækkunarinnar væru 6% hækkun á heimsmarkaðaverði á bensíni, gengishækkun Bandaríkjadollara gagnvart krónu og aukin skattlagning. Í kjölfarið hafa öll félögin nú hækkað verðið og kostar bensínlítrinn nú frá 245,80 krónum til 246,90 króna. Lítraverðið á dísilolíu breyttist ekki og er 253,30-253,80 krónur.
Bensínverð fór í júlí á síðasta ári í 242,90 krónur lítrinn en lækkaði síðan á ný. Eldsneytisverð fór síðan að hækka aftur í haust og frá því í janúar hefur bensínverðið hækkað um tæpar 19 krónur lítrinn. Verð á olíu hefur hækkað um rúmar 11 krónur lítrinn.
„Því miður sér ekki fyrir endann á þessu," sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Nú fari í hönd vorið og sumarið og þá hækki eldsneytisverð alltaf á heimsmarkaði. Og þótt búast hefði mátt við að heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði þegar framleiðsla hófst á ný í Líbíu eftir borgarastyrjöldina og Sádi-Arabar juku framleiðslu þá vofði nú yfir sölubann á Íran og hótanir Írana um lokun Hormuz-sunds.
„Það er enn okkar krafa að stjórnvöld lækki tímabundið skatta á eldsneyti og að olíufélög stilli álagningu í hóf," sagði Runólfur. Hann sagði að svo virtist t.d. sem eldsneytisverð í Danmörku hefði að undanförnu hækkað hlutfallslega minna en á Íslandi.