Hlupu út í búðirnar í Brussel

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir.
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir.

„Það er þess vegna sem við hlupum af síðasta fundinum í Brussel í síðustu viku og rukum í búðir, ekki vegna þess að það sé allt miklu betra í útlöndum, heldur vegna þess að það er hægt að fá meira fyrir minna í ESB og það er miklu meira úrval,“ skrifar Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri Já Ísland, í svargrein vegna skrifa innanríkisráðherra um utanferðir. 

Bryndís Ísfold segir vöruskortinn á Íslandi birtast í kaupgleði í Brusselferðum.

„Nú í síðustu viku var ég á ferð í Brussel ásamt fríðu föruneyti Evrópusinna, og þó enginn hafi fengið dagpeninga og þó allir dagarnir hafi verið þaulskipulagðir þá voru allir með lista yfir hluti sem þeir áttu vinsamlegast að kaupa inn fyrir vini og vandamenn. Barnaföt, sokkabuxur, belgíska osta, sérstaka skó, Tinna, Kolbein og Tobba,  Gap, H&M og aðeins meira H&M.“

Gagnrýnir innanríkisráðherra

Bryndís Ísfold skýtur föstum skotum að Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra.

„Ég nenni ekki að eyða of mörgum orðum í Ögmund Jónasson sem ásakaði í síðustu viku opinbera starfsmenn og nær alla sem nokkru sinni hafa átt í samstarfi við ESB um að ánetjast dagpeningum og fór svo sjálfur strax upp í flugvél og á dagpeningafund með ESB ráðherrunum í Danmörku.

Það sem ég nenni að eyða orðum í er hin klassíska útlandaferð Íslendinga. Því allt frá örófi alda hefur verið takmarkað úrval af varning hér á landi og hátt verð á öllum nauðsynjum gert það að verkum að Íslendinga má greina frá fjöldanum í hvaða útlandi sem er, þar sem karlar og konur troða töskur sínar fullar áður en heim er komið af því sem ekki finnst hér á landi eða því sem má aðeins finna hér á landi fyrir morðfjár. Fágætar appelsínur frá sjómönnum á stríðsárunum breyttist í fjöldaferðir húsmæðra til Glasgow á níunda áratugnum og svo í paraferðir, Bostonferðir tíunda áratugsins o.s.frv.“

Pistil Bryndísar Ísfoldar má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka