Landsdómsmál auðveldar málsókn ESA

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Hvernig ætlar íslenska ríkið að svara því í máli ESA gegn íslenska ríkinu að sjálft Alþingi telji að ábyrgðin á Icesave-reikningunum liggi hjá íslenskum stjórnvöldum?“ Þannig spyr Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og vísar til sakamálsins á hendur fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar.

Á vef sínum segir Kristján Þór að ríkistjórnin hafi heitið því að standa vörð um hagsmuni Íslands í máli Eftirlitsstofnunar EFTA á hendur íslenska ríkinu vegna ábyrgðar á Icesave-reikningum Landsbankans. Á sama tíma sé hins vegar sótt sakamál á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Kristján vísar í ákærulið 1.5 í málinu en þar segir m.a.: „[...]að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. i Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.“

Kristján segir að það muni eflaust auðvelda mjög málsókn ESA „þegar fyrir liggur að íslenska ríkið krefst refsingar á hendur fyrrverandi forsætisráðherra á þeim grundvelli að Icesave-reikningarnir hafi verið á hans ábyrgð og þar með íslenska ríkisins“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert