Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segist í grein í Fréttablaðinu í dag hafa gert einstaklingum það upp að eiga sér þann draum helstan að halda til á hótelum á kostnað skattgreiðenda. Þetta hafi verið ómaklegt og ósanngjarnt og hann biðji þetta fólk afsökunar.
Ögmundur sagði í þingræðu í síðustu viku að hætta væri á að svonefnt stofnanaveldi ánetjaðist Evrópusambandinu.
„Hvernig stendur á því, að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins þá er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök, stjórnsýslan, hlynnt en almenningur á móti? Það er vegna þess að búið er að fara með flugvélarfarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, út til Brussel þar sem fólk hefst við á kostnað ríkisins. Þetta fólk ánetjast Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, meiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þess vegna sem stofnanaveldið ánetjast Evrópusambandinu," sagði Ögmundur.
Forsvarsmenn bæði BSRB og BHM gagnrýndu ummæli Ögmundar harðlega og í greininni í dag bregst hann við því. Segir hann m.a. að það komi úr hörðustu átt þegar stjórnmálamaður, sem sé ábyrgur fyrir því að senda fólk til verka á erlendri grundu, tali til þess með þeim hætti sem hann gerði.
„En á móti vil ég biðja fólk að skilja hina eiginlegu þungamiðju í minni gagnrýni. Hún er sú að hvort sem eiga í hlut ríki, samtök eða fyrirtæki sem vilja vinna einstaklinga, hópa eða heil samfélög á sitt band, þá ástunda þau gjarnan markvisst að ánetja lykilaðila með margvíslegum strokum og velgjörðum. Evrópusambandið er sérstaklega bíræfið í þessu efni. Langt er síðan að þar á bæ var hafist handa um að bjóða hópum í „menntunarferðir" til Brussel og það er staðreynd að það getur orðið vandamál hvort sem er á Íslandi eða í Króatíu þegar hópur lykilfólks er hafður í bómull þar sem dekrað er við hann í hvívetna; til verða vinir og lífsvenjur sem verða mönnum kærar og eftirsóknarverðar," skrifar Ögmundur.