Alþýðusamband Íslands segir að íslensk heimili borgi miklu hærri vexti en bjóðast í nágrannalöndunum.
Hagdeild ASÍ hefur reiknað út mun á lánakjörum húsnæðislána hér á landi og á evrusvæðinu. Í nýju fréttabréfi ASÍ segir að himinn og haf skilji að íslensku og evrópsku hjónin sem taki sambærileg lán. Þau evrópsku greiði á bilinu 500-800 þúsund krónur á ári en þau íslensku borgi 1-2 milljónir króna á ári. Sé þessi munur reiknaður sem hlutfall af tekjum þeirra eftir skatta þurfi íslensku hjónin að eyða 18% meira af ráðstöfunartekjum sínum í greiðslur af húsnæðislánum en þau evrópsku.
„Þetta er ólíðandi staða fyrir heimilin,“ segir Ólafur Darri Andrason, yfirmaður hagdeildar ASÍ. Ekki dugi að banna verðtryggingu því þegar horft sé til þróunar vaxta hér á landi síðastliðin 20 ár komi í ljós að nafnvextir óverðtryggðra lána hafi yfirleitt verið nokkru hærri en þeirra verðtryggðu.
„Ef við viljum tryggja okkur sambærilega vexti og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við verðum við að tryggja hér sama stöðugleika og í þeim löndum. Það gerum við ekki nema með stöðugri gjaldmiðli en við búum við í dag og vandaðri hagstjórn,“ segir Ólafur Darri.