Fulltrúi VG hafði samband við Hjálmar Hjálmarsson, oddvita X-lista Næstbesta flokksins í Kópavogi, til að kanna hvort hann vildi mynda nýjan meirihluta með Samfylkingu, VG og Framsóknarflokknum. Skilyrðið var að Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingar, yrði bæjarstjóri, að sögn Hjálmars.
Þetta var á föstudaginn var. Hjálmar kvaðst ekki hafa tekið þátt í viðræðum um myndun bæjarstjórnar undanfarna daga.
„Það seinasta sem ég tók þátt í var á föstudaginn. Þá var því varpað til mín hvort ég vildi fara í meirihlutasamstarf með VG, Samfylkingu og Framsóknarflokki.
Ég var alveg til í að ræða það, en það var sett sem einhvers konar skilyrði að Guðríður Arnardóttir yrði bæjarstjóri í því samhengi. Ég var ekki til í að fara inn í þær viðræður á þeim forsendum,“ sagði Hjálmar. Hann sagði að fulltrúi VG hefði haft samband við sig og viðrað þennan kost.
Hann taldi fulla ástæðu fyrir bæjarfulltrúa í Kópavogi að skoða í fullri alvöru tillögu sem hann lagði fram á síðasta bæjarráðsfundi. Hún var um samvinnu flokkanna við stjórn bæjarins.
„Eina breytingin yrði í rauninni sú að svonefndir meirihlutafundir, sem hefð er fyrir að halda fyrir bæjarráðsfund á miðvikudögum, breytist í oddvitafundi allra framboðanna. Það er í raun eina formbreytingin sem á sér stað.
Síðan munu bæjarfulltrúar væntanlega hafa samstarf sín á milli í öllum málum sem meirihluti er fyrir. Það þarf ekki endilega að gefa sér meirihlutann fyrirfram. Það mun alltaf myndast meirihluti í öllum málum.
Þá er betra að taka skynsamlega afstöðu til hvers máls í staðinn fyrir að vera fyrirfram búinn að ákveða að vera á móti öllu því sem minnihlutinn leggur fram. Þannig er svolítið staðan í þessu og þetta finnst mér eiginlega kjánaleg staða.
Ég er tilbúinn að vinna með öllum flokkum á þennan hátt,“ sagði Hjálmar.