Mikillar reiði og óánægju gætti meðal foreldra barna í Hamraskóla í Grafarvogi og íbúa Hamrahverfis á fundi með fulltrúum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sem haldinn var í skólanum og lauk nú fyrir stundu.
Fundurinn var þéttsettinn og gott betur og stóð yfir í rúma þrjá tíma.
Á fundinum svaraði Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundasviðs, spurningum sem komu fram á öðrum fundi sem haldinn var í síðustu viku, um fyrirhugaðan flutning unglingadeildarinnar í Hamraskóla yfir í Foldaskóla.
Fyrir fundinn hafði einn fulltrúi foreldra í stýrihóp um sameininguna sagt sig úr hópnum en á fundinum sagði annað foreldri, formaður foreldrafélags Húsaskóla, þaðan sem einnig á að flytja unglingadeildina yfir í Foldaskóla, sig einnig úr stýrihópnum.
Miklar efasemdir komu fram á fundinum um fjárhagslegan og faglegan ávinning af sameiningunni en fundarmenn töldu m.a. að illa hefði verið staðið að undirbúningsvinnu og lítið samráð haft við foreldra og íbúa hverfisins.
Meðal þess sem foreldrar unglinga í skólanum hafa gert athugasemdir við er fjarlægð Foldaskóla frá Hamrahverfi, aukinn kostnaður sem leggst á foreldra vegna tíðra bílferða með börnin fram og til baka, erfiðar umferðaraðstæður við Foldaskóla og áhrif breytinganna á unglingana, t.d. með tilliti til eineltis og áhættuhegðunar.
Vildu þeir vita hversu mörgum undirskriftum þyrfti að safna til að hætt yrði við breytingarnar en fátt var um svör.