Mokstur bitnar á framkvæmdum

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umframkostnaður Vegagerðarinnar við snjómokstur og ruðninga er á milli 600 og 700 milljónir í ár. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að þessi mikli kostnaður bitni á öðrum framkvæmdum. 

„Ég hef óskað eftir greinargerð um þetta frá Vegagerðinni og mun hafa þær tölur í höndum vonandi á morgun eða hinn. En samkvæmt grófum ágiskunum er ætlað, ef fer fram sem horfir og árferðið verður svipað og við höfum fengið að kynnast, að umframkostnaður verði á bilinu 600-700 milljónum meiri í ár en var síðasta vetur,“ segir Ögmundur.

Að sögn Ögmundar er um að ræða ágiskanir frá Vegagerðinni.

En þarf ekki að skoða niðurskurð á öðrum sviðum vegna þessa? „Jú, hugsanlega. Það þarf að skoða málin heildrænt. Vegagerðin hefur tiltekið fjármagn til ráðstöfunar, ef það er ekki aukið bitnar það auðvitað á öðrum framkvæmdum.“

Ögmundur segist ekki sjá í fljótu bragði að hægt sé að auka fjármagn til Vegagerðarinnar. „En það er nokkuð sem þingið og fjárveitingarvaldið þarf að íhuga. En ég er ekki að leggja fram tillögur um það að svo stöddu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert