Ríkisstjórn Jóhönnu þriggja ára

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á ríkisráðsfundi á Bessastöðum.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrjú ár eru í dag frá því Jóhanna Sigurðardóttir myndaði ríkisstjórn, en það gerðist í kjölfar þess að Samfylkingin hvarf frá stuðningi við ríkisstjórn Geirs H. Haarde.

Nokkrir þingmenn minntust tímamótanna á Alþingi í dag. Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ríkisstjórnin hefði náð miklum árangri. Hallinn á fjárlögum hefði minnkað úr 220 milljörðum í 20 milljarða og nú væri um 3% hagvöxtur í landinu. Nokkur brýn verkefni væru hins vegar ókláruð og nefndi hann sérstaklega ný lög um stjórn fiskveiða og rammaáætlun um nýtingu auðlinda.

Magnús Orri sagði að á nefndarfundi í dag hefði komið fram að innflutt matvæli hefðu hækkað um 60% á síðustu þremur árum. Hann sagði þetta sýna vel galla krónunnar. Besta kjarabót fyrir heimilin væri að skipta um gjaldmiðil. Þá myndi verð á matvælum lækka, vextir lækka og hægt yrði að afnema verðtrygginguna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þessi ræða sýndi að Magnús Orri hefði greinilega ekki notað Internetið á síðustu misserum og kynnt sér hvað hefði verið að gerast í Evrópusambandinu.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði þingmenn Samfylkingarinnar fara með gamanmál. Það væri ástæða til að flagga í hálfa stöng á þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar. Stjórnin væri bæði vonlaus og verklaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert