Hrekkur sem nokkrir leikmenn Þórs gerðu í æfingaferð í Portúgal síðastliðið vor hefur farið eins og eldur í sinu um netið og myndband af honum hefur verið skoðað um 500 þús. sinnum á Youtube. Jóhann Ingi Gunnarsson íþróttasálfræðingur segir að þrátt fyrir að uppátækið virðist saklaust á myndskeiðinu megi spyrja ýmissa spurninga í tengslum við vinsældir þess.
Að sögn Jóhanns Inga tíðkast svartur og oft grófur húmor á meðal afreksíþróttamanna sem sé oft til þess fallinn að styrkja hópinn. Hann eigi þó ekki alltaf erindi við þá sem yngri eru þar sem forsendur fyrir þátttöku þeirra í skipulögðu íþróttastarfi séu gjarnan af öðrum toga.
Grínið myndi súrna verulega ef krakkar í yngri flokkum íþróttafélaga tækju upp á því sama. Þegar samskiptamiðill á við Youtube á í hlut sé augljóst að börn og unglinglingar hafa aðgang að efninu sem hefur hlotið viðurkenningu margra fjölmiðla fyrir að vera fyndið. Ekkert foreldri myndi kæra sig um að sjá barnið lenda í sömu aðstæðum og fórnarlamb hrekksins og eins væri hættan sú að sá sem yrði fyrir hrekknum hefði verið valinn á forsendum þess að vera veikari fyrir.