Nóatún hefur ákveðið að hætta að hafa verslanir keðjunnar opnar allan sólarhringinn. Verða þær opnar frá klukkan átta á morgnana til miðnættis.
Í fréttatilkynningu kemur fram að ákvörðun Nóatúns um að ráðast í sólarhringsafgreiðslu í marsmánuði 2010 hafi byggst á þeirri meginforsendu að hinn langi afgreiðslutími leiddi ekki til verðlagshækkana fyrir viðskiptavini Nóatúns og það hafi staðist hingað til.
„Vegna nýrra kjarasamninga hefur launakostnaður hækkað talsvert, auk þess sem aðrar kostnaðarhækkanir eru í farvatninu. Sjáum við okkur því ekki annað fært en að bregðast við með þessum hætti, enda hefur það aldrei komið til greina að velta auknum kostnaði yfir á viðskiptavini okkar í formi hærra vöruverðs.
Teljum við að með þessum aðgerðum skerðist þjónusta við viðskiptavini okkar ekki að verulegu leyti og þær séu þannig ekki aðeins okkur í hag, heldur einnig viðskiptavinum okkar,“ segir í tilkynningu.