Endurskoða þarf lög um sjóðina

Rannsóknarnefnd um starfsemi lífeyrissjóðanna kynnir skýrsluna á Grand hóteli.
Rannsóknarnefnd um starfsemi lífeyrissjóðanna kynnir skýrsluna á Grand hóteli. mbl.is/Kristinn

Endurskoða þarf lög um lífeyrissjóði og lífeyrissjóðakerfið í heild. Lífeyrissjóðirnir töpuðu á árunum 2008-2010 samtals 479,7 milljörðum króna. Þetta segir í skýrslu nefndar sem rannsakaði lífeyrissjóðina á árunum 2006-2009.

Í skýrslunni segir að endurskoða þurfi tryggingafræðilegt mat til að tryggja meiri stöðugleika í lífeyrisréttindum. Endurskoða þurfi hlutverk og eftirlitsskyldu endurskoðenda lífeyrissjóðanna.

Nefndin telur að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með lífeyrissjóðunum sé of veikt. Mati á gæðum fjárfestinga, áhættuþáttum og eftirliti með því sé víða ábótavant.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að óvarlega hafi verið farið með gjaldmiðlavarnir lífeyrissjóðanna. Umdeilt sé hvort auka hafi átt gjaldmiðlavarnir eftir mitt ár 2007. Uppgjörsákvæði hafi vantað í gjaldmiðlasamningum bankanna og lífeyrissjóðanna. Nauðsynlegt sé að setja ítarlegri ákvæði um gjalmiðlavarnir í lög og sjóðirnir þurfi að endurskoða stefnu sína hvað þetta varðar.

Töpuðu samtals 480 milljörðum króna

Í skýrslu nefndarinnar segir að á árunum 2008-2010 hafi lífeyrissjóðirnir tapað samtals 479,7 milljörðum króna. Sjóðirnir hafi tapað 100 milljörðum á skuldabréfum banka og sparisjóða, 90 milljörðum á skuldabréfum fyrirtækja, 199 milljörðum á innlendum hlutabréfum, 22 milljörðum á innlendum hlutabréfasjóðum, 24 milljörðum á innlendum skuldabréfasjóðum, 6 milljörðum á erlendum verðbréfum og 36 milljörðum á gjaldmiðlavarnarsamningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert