Greiðir 5,2 milljarða í þróunarsjóð EFTA

Össur Skarphéðinsson og Árni Þór Sigurðsson.
Össur Skarphéðinsson og Árni Þór Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland greiddi í fyrra 1.255 milljónir króna í þróunarsjóðs EFTA. Horfur eru á að Ísland greiði á árunum 2009-2014 um 5,2 milljarða í sjóðinn.

Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur alþingismanni Framsóknarflokksins.

Gjaldið sem Ísland greiðir í þróunarsjóðinn er í reynd endurgjald fyrir aðgang að innri markaði þeirra landa sem bæst hafa við Evrópusambandið eftir 1994. Samið var um þetta þegar Ísland gerðist aðili að EES.

Búið er að semja um greiðslur í þróunarsjóð EFTA fram til ársins 2014. Hlutfall Íslands í heildarframlaginu er reiknað fyrir hvert ár. Það tekur samkvæmt samningnum breytingum í takt við verga landsframleiðslu.

Í svari utanríkisráðherra segir að „miðað við þann góða gang sem nú er kominn í efnahagslíf landsmanna og væntingar um aukna landsframleiðslu má gera ráð fyrir að heildarframlag Íslands fyrir tímabilið sem um er spurt geti numið samtals allt að 33 milljónum evra. Á núverandi gengi svarar það til ríflega 5,2 milljarða kr.“

Þó landsframleiðsla verði meiri getur framlagið aldrei orðið meira en 33,975 milljónir evra eða um 5,4 milljarðar kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert