Samningur Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu er merkilegur og markar tímamót, að mati Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Nýmæli sem í honum felast eru m.a. að tekið er á ferðaþjónustu sem gerir út á kynferðismisnotkun barna.
„Samningurinn tekur með framsæknum hætti á því ógnvænlega vandamáli sem ferðaþjónusta tengd misnotkun barna er,“ sagði Össur á Alþingi þegar hann mælti fyrir tillögu um fullgildingu samningsins. Hann sagði Evrópuráðið hafa skorið upp herör gegn kynferðisofbeldi á börnum og samningurinn væri mikilvægur þáttur í þeirri viðureign. Í honum fælist ákvæði um að fella skyldi undir refsiverða háttsemi brot sem ríkisborgari landsins fremdi gegn barni, jafnvel þótt brotið væri ekki refsivert í því ríki sem það væri framið.
Össur sagði að ferðaþjónusta, sem hefur þann tilgang að veita mönnum aðganga að börnum til að misnota þau kynferðislega, væri gríðarlegt vandamál í mörgum löndum. Sum lönd hefðu tekið á því með lofsverðum hætti, en þá hefði starfsemin færst yfir landamæri til annarra landa, þar sem hún er ekki refsiverð. Þess vegna, sagði Össur, er mikilvægt að „refsilögsaga landa eins og okkar nái út yfir landamærin og nái yfir verknaði borgara okkar sem verða vísir að því að fremja glæpi af þessu tagi í þessum löndum“.
Þá lagði Össur einnig áherslu á að í samningnum væri kveðið á um að menn sem hefðu í sér hvatir eða óttuðust að þeir kynnu að leiðast til brota gegn börnum gætu leitað sér aðstoðar.
Þeir þingmenn sem tóku til máls fögnuðu allir tillögunni um að samningurinn yrði fullgildur. Þuríður Bachmann, þingmaður Vinstri grænna, sagði málið augljóst og ætti því ekki að taka langan tíma að afgreiða það. „Það er ekki langt síðan því var harðlega neitað að [alþjóðleg glæpastarfsemi eins og vændi og mansal] gæti átt sér stað hér á landi. En allt er þetta orðið staðreynd, og því verðum við að horfast blákalt í augu við það að vændi og mansal barna getur átt sér stað hér eins og annars staðar.“
Þuríður sagði að með tilkomu netsins kæmi birtingarmynd kynferðisofbeldis gegn börnum fram. Hvort það hefði leitt til þess að fleiri leiddust út í eða ánetjuðust barnamisnotkun væri erfitt að segja. „En eitt sem er víst er að við sem þjóð erum að minnsta kosti betur vakandi fyrir því að þetta er raunin hér á landi og að við verðum að bregðast við.“