Hrafn Bragason, formaður nefndar sem fór yfir fjárfestingar og ákvarðanir lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins, segir að ýmislegt hafi komið honum á óvart við rannsóknina, einkum og sér í lagi hve mikið var fjárfest í kúlulánum og hversu lítil vinna var lögð í að skoða bakgrunn fjárfestinga.
Upplýsingar sem koma fram í skýrslunni benda til þess að lífeyrissjóðirnir hafi tapað tæpum 480 milljörðum króna á fjárfestingum sínum á árunum 2008-2010. Hrafn segir að í þessum tölum sé miðað við það sem fram kemur í ársreikningum lífeyrissjóðanna og því geti þessar tölur eitthvað breyst í báðar áttir. Í einhverjum tilvikum séu eignir í fyrirtækjum sem enn eru starfandi minna virði en talið var og öfugt.
„Staðreyndin er sú að lífeyrissjóðirnir afskrifuðu flestir mjög grimmilega fljótlega eftir hrun. Að sjálfsögðu hlutabréfin strax þar sem þau voru fokin. En líka skuldabréfin. Sum þeirra hafa, til allrar hamingju, gengið til baka og hægt að minnka afskriftir,“ segir Hrafn.
Þeir sváfu á verðinum
Hann vildi ekki fullyrða hvort það þarf að afskrifa enn frekar í einhverjum þeirra fyrirtækja sem eru enn starfandi.
Hrafn segir að ýmislegt hafi komið þeim á óvart sem störfuðu í nefndinni. „Við gerðum okkur ekki grein fyrir þessum eingreiðslubréfum (kúlulánum) að þau væru svona grasserandi í þjóðfélaginu,“ segir Hrafn. „Ég held að við höfum til dæmis ekki gert okkur grein fyrir þeim og jafnframt ekki því að pappírarnir væru ekki með betri skilmálum en þetta,“ segir Hrafn.
Að sögn Hrafns segja endurskoðendur að þessi bréf hafi verið í skilum þannig séð, það voru greiddir vextir af þeim og þegar þau féllu í eindaga var jafnvel haldið nýtt útboð og sumir lífeyrissjóðir fjárfestu áfram í þeim.
„Mér finnst að það hafi einnig komið öllum á óvart með þessa tengdu aðila. Það er alveg ljóst að það hefur verið komið aftan að lífeyrissjóðunum og þeir hafa oft ekki haft hugann við þetta þegar farið var út í fjárfestingar,“ segir Hrafn og segir að það hafi komið honum á óvart eftir að hafa starfað sem hæstaréttardómari um langt skeið hvað starfsmenn lífeyrissjóðanna voru sofandi yfir tengslum milli aðila. „Skýrslan ber þess merki að okkur finnst þeir hafa sofið á verðinum,“ segir Hrafn.