LV tapaði 18 milljörðum á Kaupþingi

Lífeyrissjóður verslunarmanna tapaði tæpum átján milljörðum á hlutabréfaeign sinni í Kaupþingi, samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skýrslu nefndar sem rannsakaði fjárfestingar lífeyrissjóðanna fyrir hrun.

Gunnar Páll Pálsson, þáverandi formaður VR, sat í stjórn Kaupþings í umboði lífeyrissjóða sem áttu í bankanum.

Viðskipti árið 2008 vekja athygli

Í skýrslunni kemur fram að nafnverð hlutabréfaeignar LV í Kaupþingi hafi verið nokkuð stöðugt eða um 22-24 þúsund hlutir. Tekið skal fram að gengi hlutabréfa í Kaupþingi sveiflaðist frá 692 til 1.125 krónum á tímabilinu 2006-2008. Í skýrslunni kemur fram að þá veki kaup LV á fyrsta ársfjórðungi 2008 nokkra athygli en þá voru keyptir 2.811 hlutir að verðmæti um 2.257 milljónir króna. Hlutabréf að nafnvirði 4.331 króna voru síðan seld á öðrum ársfjórðungi 2008 með umtalsverðu tapi.

Gengi hlutabréfa Kaupþings hélt áfram að falla. Þrátt fyrir það voru á 3. ársfjórðungi aftur keypt hlutabréf í Kaupþingi, nú 1.414 hlutir að markaðsvirði um 978 milljónir króna. Við fall Kaupþings í október 2008 tapaðist sú fjárfesting, ásamt annarri eign sjóðsins í bankanum, samtals að fjárhæð 17.979 milljónir króna.

Tapaði tæpum 10 milljörðum á Exista

LV fjárfesti einnig í tengdum aðilum svo sem Exista og Bakkavör. Tap lífeyrissjóðsins á fjárfestingum í Exista nam tæpum tíu milljörðum króna og í Bakkavör tæpum hálfum milljarði króna ef miðað er við lægsta kaupgengi í félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert