PIP-fyllingar verði fjarlægðar

PIP-sílikonbrjóstapúðar
PIP-sílikonbrjóstapúðar Reuters

Landlæknir telur að fjarlægja eigi PIP-brjóstafyllingar úr þeim íslensku konum sem þær bera. Þetta var ákveðið eftir að sérfræðingahópur skilaði skýrslu um fyllingarnar. Landlæknir segir að um sé að ræða falsaða púða.

Það var sérfræðingahópurinn SCENIHR sem gaf út skýrsluna, en skammstöfunin stendur fyrir vísindanefnd Evrópusambandsins um nýjar og vaxandi heilsuvár.

Í framhaldi af skýrslunni hefur landlæknir ásamt starfsfólki embættisins og velferðarráðuneytisins og öðrum með faglega þekkingu á málefninu skoðað helstu niðurstöður skýrslunnar og metið þær í ljósi stöðunnar hér á Íslandi.

Helstu niðurstöður eru: 

• Konur með PIP-brjóstapúða hafa falsaða ígrædda púða í líkama sínum. Þessir púðar eru með iðnaðarsílíkoni og samkvæmt skýrslunni er efnasamsetning þeirra mjög breytileg. 

• PIP-brjóstapúðar hafa hylki sem vísbendingar eru um að leki fyrr en hylki annarra brjóstapúða. 

• Við leka frá PIP-brjóstapúða er staðfest að bólgusvörun er meiri samanborið við aðra púða og brottnám því erfiðara vegna þessa. 

• Vegna bólgunnar sem myndast og áhrifa hennar á nærliggjandi vefi telja hérlendir sérfræðingar að minni líkindi séu til þess að mögulegt sé að setja inn nýja púða samhliða brottnámi gamalla púða. 

• Það er mat skýrsluhöfunda að fyrirbyggjandi brottnám brjóstapúða sé skaðminna fyrir konur en brottnám púða þegar þeir leki.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir mat landlæknis byggt á faglegum forsendum og að velferðarráðuneytið muni bregðast við í samræmi við þær ábendingar sem þar komi fram.

Unnið verður að skipulagningu viðbragða og framkvæmd aðgerða á næstu dögum og mun ráðherra taka málið fyrir á fundi ríkisstjórnar næstkomandi þriðjudag.

Frétt á vef Velferðarráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert