Hrafn Magnússon, sem var framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða þar til í maí á síðasta ári, segir að niðurstaða skýrslu nefndar sem rannsakaði fjárfestingar og ákvarðanir lífeyrissjóðanna í aðdraganda hrunsins komi ekki á óvart.
Hann segist sakna þess að fram hefði komið hversu mikið tap lífeyrissjóðanna varð við fall bankanna, það er í október 2008, og segir að það verði að skoða nánar.
Að sögn Hrafns hafa orðið verulegar breytingar hjá lífeyrissjóðunum í kjölfar hrunsins, meðal annars lögum sem um þá gilda og heimildir þeirra. „Eins hafa margir lífeyrissjóðir sett sér siðareglur sem ekki var áður. Ég get tekið undir margt af því sem fram kemur í skýrslunni um starfsemi og vinnubrögð sjóðanna,“ segir Hrafn Magnússon.