„Já, það stemmir,“ segir Hulda Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnurekstri, spurð hvort hún geti staðfest úrsögn Dominique Plédel úr félaginu.
Samkvæmt frétt á Smugunni hefur Dominique Plédel, rekstraraðili Vínskólans, sagt sig úr Félagi kvenna í atvinnurekstri í mótmælaskyni.
„Það eru einhverjar óánægðar með þessa umræðu, sem er náttúrlega búin að vera erfið undanfarna daga og er orðin svolítið flókin og mörg sjónarmið uppi,“ segir Hulda spurð hvort hún vilji bregðast við úrsögn Dominique og gagnrýninni undanfarna daga.
„Þetta félag þótti bara skara fram úr við að virkja kraft kvenna innan sinna raða. Já rekur 124 manna fyrirtæki og 90% af þeim eru konur. Það má ekki gleymast að þarna er samt stór vinnustaður,“ segir Hulda um þá gagnrýni sem skapast hefur í kjölfar þess að Félag kvenna í atvinnurekstri veitti upplýsingafyrirtækinu Já.is viðurkenninguna Gæfusporið 2012.
Haft er eftir Dominique á vefmiðlinum Smugunni: „Þegar farið er að verðlauna tölur úr rekstraryfirliti án þess að skoða siðfræði eða hugmyndafræði – eingöngu vegna þess að þarna eru konur – og kalla það gæfuspor, þá eigum við ekki lengur samleið.“
Þá er einnig haft eftir Dominique: „Málið með ja.is er algjörlega vanhugsað og ég er ekki til í að vera í félagsskap þar sem konur vilja vera eins og karlar og haga sér eins og karlar. Við höfum margt annað fram að færa.“
Dominique segist hafa gengið í samtökin á þeim forsendum að þar væri tengslanet kvenna sem stunduðu fyrirtækjarekstur á forsendum kvenna, en „ekki til að apa eftir körlum“.
Hulda var spurð hvort margar félagskonur hefðu sagt sig úr félaginu undanfarna. Hún sagði að fjórar konur hefðu tilkynnt úrsögn en á móti hefðu tvær gengið í það.
Þá vísar hún í bréf sem félagskonum var sent í gær, fimmtudag.
Í bréfinu segir m.a. um ástæður veitingar viðurkenningarinnar: „Fyrir réttu ári keyptu Katrín Olga Jóhannesdóttir og Sigríður Margrét Oddsdóttir Já í félagi við Auði Capital, sem er fjáramálastofnun í meirihlutaeigu kvenna. Segja má að þar hafi blað verið brotið í viðskiptasögunni þar sem kvenstjórnendur réðust í kaup á fyrirtæki sem þær unnu hjá (management-buyout). Þegar litið er til lykilsstjórnenda félagsins kemur í ljós að 5 af 6 æðstu stjórnendum félagsins eru konur – og yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks félagsins er kvenkyns. Þetta vóg þyngst í vali stjórnar FKA þegar kom að Gæfusporinu.“
Þá segir að auki: „Án þess að FKA ætli sér að blanda sér í mál er lúta að rekstri Já að öðru leyti finnst okkur rétt að benda á að rétt eins og flest önnur fyrirtæki landsins hefur Já hins vegar orðið að grípa til ýmissa erfiðra aðgerða í hagræðingarskyni. Þar sem meirihluti starfsmanna er konur liggur það einnig í hlutarins eðli að niðurskurðaraðgerðir hljóta að bitna á þeim.
Það er alltaf sársaukafullt þegar rekstrarlegir hagsmunir krefjast þess að fólki sé sagt upp – og gildir þá einu hvort karlar eða konur verða fyrir barðinu á þeim nauðsynlegu aðgerðum. Ákvörðun Já um að leggja niður starfsstöð sína á Akureyri var bláköld rekstrarleg ákvörðun og hafði ekkert með kyn starfsfólks þar að gera.“
Að endingu segir í bréfi til félagskvenna: „Já þykir því hafa skarað fram úr við að virkja kraft kvenna innan sinna raða – og fyrir það fékk félagið Gæfuspor FKA 2012.
Að þessu sögðu munum við nú snúa okkur að því að efla félagið enn frekar með því að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á næstu mánuðum.“
Félag kvenna í atvinnurekstri hefur í 13 ár staðið að því að veita viðurkenningar til kvenna sem þykja skara fram úr í rekstri sínum.
Hulda upplýsti að um 20 konur hefðu gengið í félagið frá áramótum og í dag væru um 750 konur starfandi í félaginu.
Á heimasíðu félagsins segir að markmið þess séu m.a. að sameina konur í atvinnurekstri. og efla samstöðu þeirra og samstarf. Að stuðla að aukinni miðlun á viðskiptatengdum fróðleik milli félagskvenna, jafnt innlendum sem erlendum. Að hvetja til viðskipta á milli FKA-kvenna. Að auka sýnileika og tækifæri kvenna í viðskiptalífinu, og einnig að stuðla að virðingu og verðskuldaðri athygli samfélagsins á framlagi fyrirtækja sem rekin eru af konum og að hvetja konur til fumkvöðlastarfa.