Aðeins einn af hverjum átta Pólverjum sem tóku þátt í könnun Eflingar meðal atvinnuleitenda kvaðst geta haldið uppi almennum samræðum á íslensku. Er hlutfallið aðeins 13%. Harpa Ólafsdóttir, hagfræðingur Eflingar, segir þetta áhyggjuefni.
„Það er ljóst að sveigjanleiki fólks til að leita sér nýrra atvinnutækifæra skerðist verulega ef viðkomandi hefur ekki tök á málinu. Könnunin leiddi einmitt í ljós að Íslendingar sóttu um mun fleiri störf en Pólverjar,“ sagði Harpa.
Nýjar tölur yfir búferlaflutninga erlendra ríkisborgara til og frá landinu á síðasta ári sýna að þeir eru að ná jafnvægi og að með sama áframhaldi flytjist fleiri hingað en í burtu.
Í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að alls fluttust hingað 2.754 erlendir ríkisborgarar í fyrra eða nærri átta dag hvern, allt árið um kring. Innflytjendur af erlendum uppruna eru nú um 25.700 og fjölgar börnum þeirra hratt ár frá ári.