Vilja dýpri umræðu um aðildarferlið

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra Reuters

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks fóru fram á það í upphafi þingfundar á Alþingi í morgun, að efnt yrði til umræðu um stöðuna í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, ítarlegri umræðu en þingmenn hafa fengið á undanförnum mánuðum.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, benti á að aðstæður hefðu breyst gríðarlega frá því sótt var um aðild að Evrópusambandinu, bæði hér á landi og í Evrópu. Því beindi hann því til forseta og utanríkisráðherra að efna til viðameiri umræðu um aðildarviðræðurnar. Birgir sagði nauðsynlegt að fá meiri dýpt í umræðuna en fengist hefði hingað til.

Undir þetta tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og sagði brýnt að umræðan kæmist sem fyrst á dagskrá. Hún sagðist ekki lengur gera sér grein fyrir því hvort Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra væri talsmaður þess að ganga inn í Evrópusambandið, og vísaði í því sambandi á grein sem hún ritaði ásamt formanni Vinstri-grænna, en þar sagði að verið væri að kanna kosti og galla aðildar í því ferli sem nú stæði yfir. „Það eru ekki aðildarviðræður,“ sagði Þorgerður sem vill fá á hreint hvort Íslendingar séu ekki örugglega í aðildarviðræðum sem ljúki með samningi og þjóðaratkvæðagreiðslu um hann.

Einn stjórnarþingmaður lét sig málið varða. Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með þingmönnum Sjálfstæðisflokks og sagðist telja að dýpri umræða gæti orðið til þess að andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu gætu þurft að hugsa mál sitt betur, en umræðan hefði oftar en ekki farið fram í upphrópunum af þeirra hálfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert