„Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég næ ekkert 32 undirskriftum eins og staðan er í dag, ég er fullkomlega meðvituð um það. Enda var það kannski ekki aðalástæða þess að ég fór af stað með listann heldur til þess að vekja athygli á því af hverju mér þótti tilefni til að setja af stað svona lista,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Hún hóf fyrir nokkru að safna undirskriftum á meðal alþingismanna gegn því að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sæti áfram í embætti en samkvæmt lögum getur meirihluti þingmanna farið fram á að kosinn verði ný forseti.
Tilefnið var að Ásta samþykkti í lok síðasta mánaðar að taka á dagskrá þingsins þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að afturkalla landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, en Birgitta segir þó að óánægjan með Ástu eigi sér lengri aðdraganda.
Birgitta segist aðspurð ekki vera komin með fleiri nöfn á listann en fyrir um tíu dögum þegar átta voru á honum. Hún segist þó vita um nokkra sem væru hugsanlega tilbúnir að skrá sig. Þá segist hún ætla að halda söfnuninni áfram á meðan þingsályktunartillagan verði til umfjöllunar á Alþingi.
Þess má geta að Birgitta hefur ekki viljað gefa upp hvaða nöfn eru á listanum og sagt að það verði ekki upplýst af hennar hálfu nema hún nái 32 nöfnum. Hún hefur hins vegar sagt að meirihlutinn sé stjórnarþingmenn auk þriggja þingmanna Hreyfingarinnar.
Þá má geta þess að Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur upplýst að eigin frumkvæði að hann hafi skrifað undir listann.