Gagnrýna náið samband við Glitni

Almenni lífeyrissjóðurinn er einn af fáum íslenskum lífeyrissjóðum þar sem …
Almenni lífeyrissjóðurinn er einn af fáum íslenskum lífeyrissjóðum þar sem sjóðfélagar kjósa stjórn. mbl.is/hag

Hlutabréfaeign Almenna lífeyrissjóðsins var fyrir hrun áberandi mest í Glitni eða allt að 77% af hlutabréfasafninu í árslok 2006 og lengi vel var stór hluti af eignum  lífeyrissjóðsins ávaxtaður í verðbréfasjóðum Glitnis. Með rekstrarsamningi var Glitni falin stjórn og rekstur sjóðsins í mörg ár og eru þessi tengsl gagnrýnd í skýrslu úttektarnefndar á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða sem kynnt var í gær.

Áætlað tap Almenna lífeyrissjóðsins á árunum 2008–2010, er 29,7 milljarðar króna. Í ársreikningum sjóðsins eru gjaldmiðlavarnarsamningar við bankana hins vegar gerðir upp sem þýðir m.ö.o. að ársreikningur sjóðsins sýnir verstu mögulegu stöðu á samningunum gagnvart bönkunum. Samkvæmt því yrði tap sjóðsins 33,2 milljarðar króna. Sjóðurinn er nú fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins.

Þetta kemur fram í skýrslu nefndar sem rannsakaði fjárfestingar lífeyrissjóðanna og birt var í gær.

Í skýrslunni er mikið fjallað um tengsl sjóðsins við Glitni en Almenni lífeyrissjóðurinn og sjóðir þeir sem sameinuðust í honum, höfðu um tuttugu ára skeið rekstrarsamning við Íslandsbanka/Glitni sem fól í sér að bankinn sá alfarið um framkvæmdastjórn og daglegan rekstur sjóðsins. „Ástæða er til að hyggja aðeins að svona nánu sambandi
banka og lífeyrissjóðs,“ segir í skýrslunni.

77% hlutabréfasafnsins í Glitni

Á árunum fyrir hrun var stór hluti af eignum Almenna lífeyrissjóðsins ávaxtaður í verðbréfasjóðum Glitnis. Þannig voru 29.134 milljónir króna af eignum sjóðsins vistaðar í Glitnissjóðum í lok árs 2006 en það svaraði til 35% af hreinni eign sjóðsins til greiðslu lífeyris.

Þá var hlutabréfaeign sjóðsins áberandi mest í Glitni eða allt að 77% af hlutabréfasafninu í árslok 2006.

Almenni lífeyrissjóðurinn tók þátt í skuldabréfa útboði bankans í mars árið 2008.  Um var að ræða útboð á svokölluðum „víkjandi og breytanlegum skuldabréfum“.

Skuldabréfaútboðið var að því leytinu sérstakt, að skuldabréfin voru án gjalddaga. Almenni lífeyrissjóðurinn keypti skuldabréf fyrir 1.620 milljónir króna sem töpuðust að fullu strax við fall bankanna.

Keypt í Glitni - selt í Kaupþingi

Í upphafi árs 2006 átti sjóðurinn 157.048 þúsund hluti í Glitni að verðmæti 2.717 milljónum króna. Sjóðurinn dró síðan verulega úr nafnverðseign sinni í Glitni á árinu 2007 og seldi hlutabréf með verulegum hagnaði. Eftir söluna stóð nafnverðið í 80.924 þúsund hlutum.

Eignahlutur sjóðsins í Glitni var síðan óbreyttur allt fram á síðasta ársfjórðung 2008 en þá voru keyptir 40.886 þúsund hlutir á genginu 4,27.

Athygli vekur að á sama tíma og þessi síðustu hlutabréfakaup í Glitni eiga sér stað er sjóðurinn að selja hlutabréf í Kaupþingi fyrir nánast sömu upphæð eða 170 milljónir króna.

Tap sjóðsins á hlutabréfaeign sinni í Glitni ofangreint tímabil hefur numið a.m.k. 1.155 milljónir króna.

Það þarf því engan að undra að mestar afskriftir sjóðsins á árunum eftir hrun voru hjá Glitni eða samtals 3.355 mkr.

Breytt eignarhald á banka hafði áhrif

Í skýrslunni er vakin sérstök athygli á því að eign Almenna í FL Group jókst á árinu 2007 úr 676 milljónum króna í ársbyrjun uppí 2,2 milljarða í árslok sem var hækkun um 227,9%. Aukningin í FL Group átti sér eingöngu stað í gegnum verðbréfasjóði Glitnis.

Sama má segja um Baug Group. Eign Almenna í Baugi á árinu 2007 fór úr 601 milljón króna í ársbyrjun upp í 1.809 milljónir í árslok sem var aukning um 200%.

„Skýringuna á þessari miklu eignaaukningu Almenna lífeyrissjóðsins í FL Group hf. og Baugi Group hf. gæti verið að finna í breyttu eignarhaldi á Glitni á árinu 2007 en í apríl það ár náði FL Group hf. yfirráðum í bankanum,“ segir í skýrslunni.

Engin umræða um eignatengsl

Skýrsluhöfundar segja ljóst af viðtölum við stjórnarmenn Almenna lífeyrissjóðsins að lítil eða engin umræða skapaðist innan stjórnar um stjórnenda- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Töldu stjórnarmenn að það hlyti að vera hlutverk lífeyris- og fagfjárfestasviðs bankans að fylgja fyrirmælum laga og reglugerða þar um.

Starfsfólk þessarar deildar bankans virðist heldur ekki hafa gert sér fulla grein fyrir því hvaða hætta stafaði af miklum lánveitingum bankans til margra helstu eigenda hans þegar kom fram á árið 2007, þar á meðal úr sjóðum sem lífeyrissjóðurinn átti í stóran hlut.

Tengsl sjóðsins við verðbréfasjóði Glitnis banka og í lokin eftirlitsleysi um stjórn þessara sjóða, hvort sem því mátti viðkoma eða ekki, urðu sjóðnum kostnaðarsöm. Hins vegar
segja skýrsluhöfundar ekki unnt að ætla að stjórnendur Almenna lífeyrissjóðsins frekar en stjórnendur annarra sjóða hafi átt að gera sér grein fyrir hversu höllum fæti bankarnir stóðu.

Sjóðsfélagar kjósa stjórn

Almenni lífeyrissjóðurinn er einn af fáum íslenskum lífeyrissjóðum sem eru þannig upp byggðir að sjóðfélagar kjósa stjórn sjóðsins á ársfundi. Hann var stofnaður árið 1990. Margir aðrir sjóðir hafa síðan sameinast Almenna lífeyrissjóðnum og nú er hann opinn öllum en er jafnframt starfsgreinasjóður arkitekta, lækna, leiðsögumanna, hljómlistarmanna og tæknifræðinga.

Það var ekki fyrr en í maí 2009 að sjóðurinn hóf sjálfstæðan rekstur með eigin starfsmönnum. Fram að þeim tíma hafði sjóðurinn haft eigin stjórn þar sem var a.m.k.
einn fulltrúi bankans en allir starfsmenn voru starfsmenn Íslandsbanka/Glitnis.

Almenni lífeyrissjóðurinn fól Íslandsbanka, síðar Glitni rekstur sjóðsins.
Almenni lífeyrissjóðurinn fól Íslandsbanka, síðar Glitni rekstur sjóðsins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka